Innlent

Björguðu manni sem hafði sokkið djúpt með annan fótinn í sand

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sandvatn er á Haukadalsheiði sunnan Langjökuls.
Sandvatn er á Haukadalsheiði sunnan Langjökuls.

Lögreglan á Suðurlandi var kölluð út um klukkan tíu í gærkvöldi vegna skotveiðimanns sem hafði sokkið með annan fótinn djúpt í sandinn í Sandvatni á Haukadalsheiði, sunnan Langjökuls.

Þetta staðfestir Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.

Sveinn segir að maðurinn hafi sokkið með annan fótinn djúpt í sandi úti í vatninu, um tuttugu metra frá bakkanum. Vatnið náði honum upp að mitti og var hann orðinn kaldur og hrakinn.

Maðurinn var á ferð með félaga sínum að sögn Sveins og hringdi sá á hjálp þegar honum tókst ekki að losa hann.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og kom hún á vettvang um miðnætti. Sveinn segir að búið hafi verið að losa manninn um klukkan eitt í nótt og þá hafi hann verið fluttur á bráðamóttöku Landspítalans í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×