Innlent

Annar ósprunginn flugeldur reyndist vera á staðnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sérsveitin var kölluð til.
Sérsveitin var kölluð til. Mynd/Ríkislögreglustjóri

Meðlimir sérsveitar ríkislögreglustjóra voru á meðal þeirra sem kallaðir voru út í Heiðmörk í gærkvöldi eftir að maður á sextugsaldri slasaðist alvarlega þegar þriggja tommu tívolíbomba sprakk.

Á færslu á Facebook-síðu Ríkislögreglustjóra segir að sprengjusérfræðingar hafi verið sendir á vettvang til þess að tryggja vettvang, en í ljós kom að annar ósprunginn flugeldur var á staðnum. Var honum eytt með sérútbúnum búnaði sem notaður er til sprengjueyðingar.

Maðurinn slasaðist alvarlega á handlegg en með honum í för var eiginkona hans sem fór úr peysu sinni og batt utan um handlegginn og náði þannig að hægja á blæðingunni. Að því er fram kom á Vísi fyrr í dag virðist maðurinn hafa borið eld að að tívolíbombunni.

Í Facebook-færslu ríkislögreglustjóra er almenningur varaður við því að fikta eða eiga við sprengjur eða torkennilega hluti sem þeir kunna að finna á víðavangi eða annarstaðar, hringja eigi tafarlaust í lögreglu í síma 112 til að tilkynna fundinn.

Þorvaldur Friðrik Hallsson gæðastjóri hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg ræddi um meðhöndlun flugelda í ljósi slyss um helgina í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, þar sem meðal annars kom fram að flugeldar á borð við þann sem olli slysinu í Heiðmörk geti hæglega verið lífshættulegir.

Hlusta má á viðtalið við Þorvald hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×