Innlent

Sprenging í Heiðmörk: „Vinstri handleggurinn hafði sprungið og horfið fyrir ofan olnboga“

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan mun ræða við manninn sem slasaðist alvarlega þegar hann hefur jafnað sig. 
Lögreglan mun ræða við manninn sem slasaðist alvarlega þegar hann hefur jafnað sig.  Vísir/Vilhelm

Maðurinn sem slasaðist alvarlega eftir að þriggja tommu tívolíbomba sprakk í Heiðmörk í gær virðist hafa borið eld að henni. Þetta segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn slasaðist alvarlega á handlegg en með honum í för var eiginkona hans sem fór úr peysu sinni og batt utan um handlegginn og náði þannig að hægja á blæðingunni.

Lögreglan fékk tilkynningu klukkan 18:50 í gærkvöldi um alvarlegan atburð í Heiðmörk. Samkvæmt vitnisburði fólks á staðnum hafði maður á sextugsaldri gengið fram á þriggja tommu tívolíbombu sem hafði sprungið eftir að hann handlék hana.

„Það voru þarna hjón á rölti í Heiðmörk og ganga fram á þetta. Þetta var meðfram göngustíg og maðurinn fer eitthvað að skoða þetta. Hann virðist hafa borið eld að þessari tívolíbombu með þessum afleiðingum,“ segir Skúli.

„Vinstri handleggurinn hafði sprungið og horfið fyrir ofan olnboga.“

Á þar Skúli við að handleggurinn frá fingrum og upp fyrir olnboga hafi sprungið af.

Eiginkona mannsins brást skjótt við. Hún klæddi sig úr peysunni, vafði henni þétt utan um sárið og náði þannig að hægja á blæðingunni áður en sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

„Maðurinn var með fullri meðvitund og fluttur upp á spítala og í aðgerð þar.“

Í tilkynningu frá lögreglu sagði um erlenda einstaklinga hefði verið að ræða og tungumálaörðugleikar hefðu flækt samskipti en vitni hefðu lýst því að sprengjan hafi fundist á svæðinu.

Skúli bendir á að fundur á þriggja tommu tívolíbombu veki furðu.

„Ef ég man rétt hefur almenn sala á þriggja tommu tívolíbombum ekki verið leyfð í fjölda ára. Við vitum ekkert hvaðan þetta kemur. Þar að auki hefur verið mikil bleyta á suðvesturhorninu. Reyndar ekki síðustu viku en nokkrar vikur þar á undan. Þess vegna er erfitt að vita hversu lengi þetta hefur verið þarna. Það er ábyrgðarhluti að skilja þetta svona eftir,“ segir Skúli og tekur fram að svona öflugar tívolíbombur séu helst aðeins í höndum sérfræðinga þegar flugeldasýningar eiga sér stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×