Erlent

Aldrei fleiri látist á einum degi í Ástralíu

Sylvía Hall og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Þegar slakað var á aðgerðum í júlí tók faraldurinn kipp upp á við.
Þegar slakað var á aðgerðum í júlí tók faraldurinn kipp upp á við. Vísir/Getty

Nítján dóu í Viktoríuríki í Ástralíu af völdum Covid-19 síðasta sólarhringinn og hafa dauðsföll af völdum sjúkdómsins aldrei verið fleiri á einum degi í landinu. Þó vekja færri staðfest smit en áður vonir um að faraldurinn hafi náð hámarki.

Veiran hefur verið sérstaklega skæð í stórborginni Melbourne síðustu vikur. Borgin er í Viktoríuríki þar sem um 75 prósent allra dauðsfalla í landinu hafa orðið, alls 314, og tæplega 22 þúsund staðfest smit.

Í vor gekk Áströlum vel að berjast við veiruna. Þá var gripið til víðtækra aðgerða í landinu öllu á fyrstu stigum faraldursins og útgöngubann sett á víða. Þegar fólk fékk síðan loks að fara út fyrir hússins dyr í júlí, tók faraldurinn kipp uppávið og sérstaklega í Melbourne. Þar var því komið á útgöngubanni á nýjan leik í byrjun ágúst og stendur það enn.

Grímuskyldu hefur verið komið á í Viktoríuríki og var öllum fyrirtækjum sem ekki eru talin nauðsynleg gert að loka. Vinnandi fólk sem hyggst yfirgefa heimili sín þarf að hafa tilskilið leyfi til þess að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Rúmlega hundrað manns hafa látist í Viktoríuríki síðustu sjö dagana og innlögnum á spítala hefur fjölgað mjög.


Tengdar fréttir

Réðst á lögreglukonu vegna spurningar um grímuleysi

Lögregluþjónar í Melbourne í Ástralíu, þar sem kórónuveiran hefur verið skæð undanfarið, segist hafa verulegar áhyggjur af því hversu margir borgarbúa fari á skjön við tilmæli yfirvalda um sóttvarnir og fjarlægðartakmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×