Erlent

Óttast að hátíðahöld í Íran vegna Ramadan séu í hættu

Andri Eysteinsson skrifar
Ayatollah Ali Khamenei leiðtogi Íran.
Ayatollah Ali Khamenei leiðtogi Íran. Getty/Anadolu

Ayatollah Ali Khamenei æðsti leiðtogi Íran segir líklegt að samkomubann vegna kórónuveirunnar verði í gildi á meðan að á Ramadan stendur. Ef bannið stendur munu hátíðarhöld og bænastundir vera felld niður. AP greinir frá.

Í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag sagði Khamenei að Ramadan-mánuðurinn muni vera óvenjulegur í þetta sinn vegna veirunnar.

„Við munum ekki geta safnast saman í Ramadan. Samkomurnar hafa verið tækifæri til að biðja eða hlýða á predikanir. Mikilvægt er að biðja þrátt fyrir að samkomurnar verði engar, sagði Khamenei.

Í ár hefst Ramadan 23. apríl og lýkur mánuði síðar, 23.maí. Á þeim tíma fasta múslimar og neyta hvorki votts né þurrs frá sólarupprás til sólsetur. Vegna kórónuveirunnar hefur trúarlíf Írana verið sett úr skorðum líkt og aðrir þættir samfélagsins. Moskum hefur verið lokað og bænastundum aflýst.

Yfir 66.000 tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í landinu og yfir 4.100 hafa látist. Þó hafa einhverjar vangaveltur verið á lofti um hvort ríkisstjórnin hafi fegrað tölurnar í upphafi faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×