Erlent

Skákpar lést af völdum hláturgass í Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hláturgas hefur verið notað sem vímugjafi og andar fólk gasinu þá að sér úr blöðru. Gasið getur haft hættulegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Myndin er úr safni.
Hláturgas hefur verið notað sem vímugjafi og andar fólk gasinu þá að sér úr blöðru. Gasið getur haft hættulegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Tveir úkraínskir atvinnumenn í skák fundust látnir í íbúð sinni í Moskvu í gærkvöldi og virðast hafa látið lífið af völdum hláturgass. Lögreglumenn fundu gasblöðrur með hlátursgasi í íbúð fólksins sem var par. Hláturgas hefur verið notað sem deyfingarlyf en einnig sem vímugjafi sem hefur verið tengdur við fjölda dauðsfalla.

Stanislav Bogdanovitsj, 27 ára, og Alexandra Vernigora, átján ára, voru stóðu bæði framarlega í skák. Hann var stórmeistari og vann landsmót 18 ára og yngri í heimalandinu Úkraínu á sínum tíma. Rússnesk skáksíða segir að Bodanovitsj hafi um tíma verið talinn áttundi besti hraðskákmaður í heimi árið 2015. Vernigora var einnig atvinnumaður í skák auk þess sem hún nam við Ríkisháskólann í Moskvu.

Rússneska lögreglan segir að engin ummerki um átök hafi verið að finna í íbúðinni. Við hlið líkanna fundust blöðrur með nituroxíði en þeir sem neyta gassins sem vímugjafa gera það með því að anda því að sér í gegnum blöðrur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Rússneskir fjölmiðlar halda því fram að parið hafi fundist með plastpoka yfir höfðinu og með hláturgashylki við hlið sér, að sögn AP-fréttastofunnar.

Bogdanovitsj sætti töluverðri gagnrýni þegar hann keppti fyrir hönd Rússlands í skák á netinu gegn Úkraínu og hafði sigur. Rússland og Úkraína hafa átt í óbeinu stríði í austurhluta Úkraína frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Bogdanovitsj réttlætti ákvörðun sína um að keppa fyrir Rússland með því að hann væri gestur í landinu og þar hefði verið komið vel fram við hann. Þátttaka hans í mótinu væri framlag hans til að stuðla að bættum samskiptum á milli ríkjanna tveggja.

Hlátursgas getur valdið öndunarerfiðleikum, hættulega örum hjartslætti og brunasárum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×