Handbolti

Vranjes tekinn við Slóvenum og stýrir þeim gegn löndum sínum á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vranjes var í ellefu ár hjá Flensburg, bæði sem leikmaður og þjálfari.
Vranjes var í ellefu ár hjá Flensburg, bæði sem leikmaður og þjálfari. vísir/getty

Ljubomir Vranjes, þjálfari Íslendingaliðsins Kristianstad í Svíþjóð, hefur verið ráðinn þjálfari slóvenska karlalandsliðsins í handbolta. Hann mun gegna því starfi samhliða því að þjálfa Kristianstad sem Ólafur Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson leika með.

Vranjes tekur við Slóvenum af Veselin Vujovic sem hætti í síðasta mánuði.

Vranjes stýrir slóvenska liðinu á EM 2020. Slóvenar eru í F-riðli sem verður leikinn í Gautaborg, fæðingarborg Vranjes.

Auk Slóvena eru Pólverjar, Svisslendingar og Svíar í F-riðli. Vranjes, sem er fyrrverandi leikmaður sænska landsliðsins, mætir löndum sínum 12. janúar.

Vranjes stýrði áður landsliðum Serbíu og Ungverjalands. Hann var einnig sterklega orðaður við íslenska landsliðið fyrir þremur árum en gaf HSÍ afsvar.

Vranjes er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Flensburg. Hann lék með liðinu 2006-09 og þjálfaði það 2010-17. Undir stjórn Vranjes varð Flensburg Evrópumeistari 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×