Körfubolti

Matthías: Algjör draumur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Matthías Orri er hér til hægri.
Matthías Orri er hér til hægri. vísir/vilhelm
„Við náðum að læsa þeim algjörlega í 3. leikhluta varnarlega. Mér fannst við vera með þá frá byrjun. Við þurfum að fjölga þessum mínútum þar sem við skellum í lás á lið,“ sagði ánægður Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður KR eftir öruggan, 102-84, sigur liðsins á Haukum í Vesturbænum í kvöld.

Matthías átti frábæran leik og skoraði 22 stig þar sem hann var með 77% skotnýtingu sem verður að teljast ansi gott.

„Mér gekk vel í þetta skiptið. Ég hitti illa í fyrsta leik en þetta gengur oft svona í byrjun móts. Þá er maður ekki alveg nógu stabíll. Ég var ánægður að hitta vel og stefni á að gera það í næsta leik líka.“

Matthías er auðvitað ekki eini Sigurðarson í KR í dag en eldri bróðir hans, Jakob Örn Sigurðarson, snéri aftur í KR úr atvinnumennskunni í Svíþjóð eftir 10 ára fjarveru frá Vesturbæjarliðinu. En Matthías gekk einnig til liðs við KR í sumar eftir að spila með ÍR frá árinu 2013. En hvernig er að spila á vellinum með stóra bróðir?

„Það er ógeðslega gaman. Gaman líka að spila með svona mörgum gömlum körfuboltamönnum sem eru með svona góða körfubolta IQ. Mjög sjaldan sem einhver tekur rangar ákvarðanir og allt er mjög afslappað,“ sagði Matthías og hélt áfram.

„Ég er mjög ánægður að vera kominn í Vesturbæinn. Þetta er minn heimabær. Þetta er félagið mitt og ég er gjörsamlega að elska að spila fyrir þá.“

Það er nóg af reynslu í KR og Matthías kveðst ætla sér að nýta tækifærið og læra af reynsluboltunum.

„Það eru allskonar hlutir sem maður er að læra. Sérstaklega varnarlega. Jón Arnór er auðvitað einn besti varnarmaður sem Ísland hefur átt. Ég er bara að njóta þess að spila með þeim. Þetta er bara algjör draumur.“

Það er væntanlega þægilegra að spila með þeim í KR en á móti þeim?

„Já,“ sagði Matthías hlæjandi. „Miklu þægilegra!“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×