Erlent

Konur mega nú gista einar á hótelum í Sádi-Arabíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sádiarabískar konur munu einnig geta ferðast einar og gist á hótelum án fylgdarmanns.
Sádiarabískar konur munu einnig geta ferðast einar og gist á hótelum án fylgdarmanns. getty/Sean Gallup
Ógift erlend pör munu nú geta leigt hótelherbergi saman í Sádi-Arabíu en það hefur ekki staðið til boða hingað til. Breytingin er hluti af nýju ferðaleyfi fyrir erlenda ríkisborgara sem verið er að koma á laggirnar. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Auk þessa munu konur einnig geta gist einar á hótelherbergjum. Áður en þessi breyting kom til þurftu pör að sanna að þau væru gift áður en þau fengu hótelherbergi.

Breytingarnar eru einn liður í tilraunum sádi-arabíska konungsveldisins til að auka ferðamannaaðsókn til landsins. Ríkið hefur síðastliðin misseri gert ýmsar breytingar í von um að heilla mögulega ferðamenn og fjárfesta.

Nýlega voru réttindi kvenna til að ferðast aukin og geta konur nú ferðast án leyfis eiginmanns eða karlkyns ættingja sinna og þær mega keyra bíl sjálfar.

Hingað til hafa pör þurft að sýna fram á hjónaband með opinberum skjölum en nú hefur þessum reglum verið aflétt fyrir erlenda ríkisborgara.

„Allir Sádar þurfa að sýna fram á að um fjölskyldu sé að ræða eða sönnun fyrir sambandi þegar þeir gista á hótelum,“ sagði talsmaður sádi-arabísku nefndarinnar um ferðaþjónustu og þjóðararfleifð í tilkynningu.

„Þetta gildir ekki um erlenda ríkisborgara. Allar konur, þar á meðal sádi-arabískar konur, geta bókað og gist á hótelherbergjum einar síns liðs svo lengi sem þær rétta fram skilríki þegar þær mæta.“

Þá munu kvenkyns ferðamenn ekki þurfa að hylja sig frá toppi til táa en munu samt þurfa að vera siðsamlegar til fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×