Innlent

Frítt í strætó í dag vegna bíllausa dagsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjölgun í Strætó er vel umfram fjölgun íbúa.
Fjölgun í Strætó er vel umfram fjölgun íbúa. Fréttablaðið/Anton
Bíllausi dagurinn verður haldinn hátíðlegur í dag og í tilefni þess verður frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Dagurinn í dag markar lok evrópsku samgönguvikunnar en hápunktur hennar hér á landi verður Bíllausa gangan sem Samtök um bíllausan lífstíl munu halda. Bíllausa gangan hefst kl. 12.30 við Klambratún, á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar. 

Milli klukkan 13.00- og 13.30 verður Miklubraut lokað fyrir umferð einkabíla frá Lönguhlíð og að Njarðargötu. Í staðinn verður gatnan opnuð öðrum vistvænum samgöngumátum sem munu aka í skrúðgöngu niður að Lækjargötu þar sem fjölbreytt dagskrá tekur við.

Í tilkynningu frá Strætó segir að vegna þess munu leiðir 1, 3 og 6 ekki geta ekið vestur um Miklubraut frá gatnamótum Lönguhlíðar á milli klukkan 12.30 og 13.30. Leiðirnar aka í staðinn hjáleið um Lönguhlíð í átt að Hlemmi.

Biðstöðvarnar Háskóli Íslands, BSÍ/Landspítalinn og Klambratún á leið í vestur verða óvirkar í eina klukkustund. Smávægileg öskun kann að myndast á leiðum 5, 11, 12, 13 og 15 á meðan á göngunni stendur.

Þá verður Lækjargata lokuð fyrir Strætó á milli klukkan 12.30 og 13.30. Leiðir 1, 3 og 6 aka Snorrabraut í stað Sæbrautar, til og frá Hlemmi. Leiðir 11, 12 og 13 aka um Snorrabraut og Gömlu Hringbraut í stað Sæbrautar, til og frá Hlemmi.

Biðstöðvarnar Lækjartorg, Harpa, Sæbraut/Frakkastígur, Sæbraut/Vitastígur, MR, Fríkirkjuvegur og Ráðhúsið verða óvirkar yfir þennan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×