Erlent

Forseti þingsins hundskammaði breska þingmenn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
John Bercow, forseti breska þingsins, skammaði þingmenn í dag vegna orðræðu gærdagsins. Mikil reiði var þá á þingi en þar fór fram fyrsti fundurinn eftir að hæstiréttur ógilti ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fresta þingfundum.

Á þingfundi gærdagsins sagði Boris Johnson forsætisráðherra til að mynda að besta leiðin til að minnast þingkonunnar Jo Cox væri að klára útgönguna úr Evrópusambandinu. Öfgafullur útgöngusinni myrti Cox í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit sumarið 2016.

Í dag lýstu þingmenn svo óánægju sinni með að Johnson hafi í umræðum um útgöngumálið kallað frumvarp sem þingið samþykkti um að fresta útgöngu „uppgjafarfrumvarp“. Sagðist einn þingmanna Verkamannaflokksins til að mynda hafa fengið morðhótanir sem hann tengdi orðavali forsætisráðherrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×