Erlent

Myndband tekið utan úr geimnum sýnir gífurlegt umfang fellibylsins Dorian

Eiður Þór Árnason skrifar
Dorian er nú skilgreindur sem fimmta stigs fellibylur
Dorian er nú skilgreindur sem fimmta stigs fellibylur Skjáskot
Myndavélar staðsettar utan á Alþjóðlegu geimstöðinni náðu ótrúlegu myndbandi fyrr í dag utan úr geimnum sem sýnir umfang fellibylsins Dorian sem hefur nú gengið á land á Bahamaeyjum. Dorian er skilgreindur sem fimmta stigs fellibylur og er um að ræða sterkustu vinda sem mælst hafa á norðvesturhluta Bahamaeyja.

Sjá einnig: Dorian orðin fimmta stigs fellibylur

Búið er að rýma svæðin á þeirri leið sem áætlað er að fellibylurinn fari yfir. Hámarksvindhraði Dorian náði 260 kílómetrum á klukkustund í dag en fimmta stiginu er náð þegar hámarksvindhraði fer yfir 252 kílómetra á klukkustund. Íbúar hafa verið varaðir við því að fellibylurinn sé gífurlega hættulegur.

Nýjustu spár benda til þess að strendur Flórídaríkis sleppi undan eyðileggingu stormsins en lítið þarf þó til þess að bylurinn rati á strendur Flórída á þriðjudag eða miðvikudag.

Dorian stefnir í að vera hættulegasti fellibylurinn sem nær landi í Bandaríkjunum síðan fellibylurinn Andrew reið yfir árið 1992. Ríkisstjóri Flórída, Rob DeSantis, lýsti á dögunum yfir neyðarástandi í Flórída en íbúar ríkisins hafa undanfarna daga verið að birgja sig upp af matvælum, vatni og lyfjum.


Tengdar fréttir

Dorian nálgast: „Hæg­fara felli­bylur er ekki vinur okkar“

Gangi spár eftir verður Dorian fyrsti fjórða stigs fellibylur sem skellur á austurströnd Flórída síðan árið 1992 þegar fellibylurinn Andrew, sem var fimmta stigs fellibylur, rústaði öllu sem á vegi hans varð á Miami og varð 65 manns að bana.

Dorian orðinn fjórða stigs fellibylur

Fellibylurinn Dorian, sem stefnir á Bahamaeyjar og Flórída næsta sólarhringinn er orðinn fjórða stigs fellibylur og því metinn gríðarlega hættulegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×