Erlent

Konur í Sádi-Arabíu geta ferðast án leyfis karl­manna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sádi arabískar konur faðmast.
Sádi arabískar konur faðmast. getty/Saqib Majeed
Sádi arabískar konur hafa nú leyfi til að ferðast utan landsteinana án leyfis fylgdarmanns. Þessi breyting kemur eftir að konungleg tilskipun var gefin út í vikunni.

Með innleiðingu þessara nýju reglna, sem voru tilkynntar í morgun, fá konur sem eru 21 árs og eldri leyfi til að sækja um vegabréf án þess að fá leyfi frá karlkyns „verndara.“ Þetta er stórt skref í baráttu kvenna fyrir jafnrétti í ríkinu.

Konur fá einnig leyfi til að skrá barnsburð, hjónaband og skilnað.

Reglubreytingin er svar við ítrekuðum tilraunum kvenna til að flýja ríkið á síðustu misserum.

Sádi arabísk kona sýnir ökuskírteinið sitt.getty/Saqib Majeed
Konungsríkið hefur lengi verið gagnrýnt fyrir það hversu lítilla réttinda konur njóta en undanfarið hefur leiðtogi þess, krónprinsinn Mohammed Bin Salman, aukið réttindi kvenna. Akstursbanni kvenna var til dæmis lyft á síðasta ári.

Þrátt fyrir þetta hafa kvenréttindakonur verið handteknar í stórum stíl og nokkrar þeirra hafa farið fyrir dóm.

Umsjónarmenn kvenna

Hingað til hafa konur þurft að fá leyfi frá eiginmönnum, feðrum og öðrum karlkyns ættingjum til að sækja um ný vegabréf eða yfirgefa landið.

Með þessum nýju reglum geta allir sem hafa náð 21 ára aldri sótt um nýtt vegabréf. Nú geta konur líka skráð fæðingu barna, hjónabönd og skilnaði.

Konur munu einnig geta sótt frekar út á vinnumarkað en nýju lögin segja að allir hafi rétt til þess að vinna án þess að þeim sé mismunað vegna kyns, aldurs eða fötlunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×