Fótbolti

Gunnhildur Yrsa lagði upp mark fyrir nýkrýndan heimsmeistara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa lék allan leikinn gegn Portland.
Gunnhildur Yrsa lék allan leikinn gegn Portland. vísir/getty
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lagði upp mark þegar Utah Royals gerði 2-2 jafntefli við Portland Thorns í bandarísku kvennadeildinni í nótt.

Fjölmargir úr heimsmeistaraliði Bandaríkjanna tóku þátt í leiknum í Utah í nótt.

Þeirra á meðal var Christen Press sem skoraði fyrir Utah á markamínútunni, þeirri 43., eftir langa sendingu Gunnhildar Yrsu yfir til vinstri.

Press fór afar illa með varnarmann Portland, þrumaði svo boltanum í netið og jafnaði í 1-1. Hin kanadíska Christine Sinclair hafði komið Portland yfir á 9. mínútu.

Gestirnir komust aftur á 87. mínútu þegar heimsmeistarinn Lindsey Horan skoraði. En á lokamínútunni jafnaði skoski varnarmaðurinn Rachel Corsie fyrir Utah með skoti af stuttu færi. Lokatölur 2-2. Allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.



Gunnhildur Yrsa lék allan leikinn fyrir Utah. Dagný Brynjarsdóttir lék ekki með Portland en hún giftir sig á Íslandi um helgina.

Portland er með eins stigs forskot á toppi deildarinnar en Utah er í 5. sætinu. Fimm stigum munar á liðunum en Utah hefur leikið einum leik minna en Portland.


Tengdar fréttir

Engin Dagný í slag Íslendingaliðanna í nótt

Íslensku landsliðskonurnar Dagný Brynjarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir áttu að mætast í nótt með liðum sínum í bandarísku kvennadeildinni í fótbolta. Af því verður þó ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×