Viðskipti innlent

Jarðböðin hagnast um rúmlega 300 milljónir

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá jarðböðunum.
Frá jarðböðunum.
Jarðböðin á Mývatni högnuðust um 313 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaðurinn jókst lítillega á milli ára en hann nam 294 milljónum á árinu 2017. Heildarvelta félagsins jókst um 100 milljónir en hún nam 922 milljónum króna samanborið við 821 milljón króna á árinu 2017.

Stærstu hluthafarnir í Jarðböðunum eru fjárfestingafélagið Tækifæri, sem er aðallega í eigu KEA, Íslenskar heilsulindir, sem er dótturfélag Bláa lónsins, og Landsvirkjun. Í árslok 2018 voru Jarðböðin metin á um 4,6 milljarða króna í bókum Tækifæris sem fer með 43,8 prósenta hlut. Í upphafi árs 2018 voru hluthafar í félaginu 74 en 68 í lok árs.

Jarðböðin voru opnuð sumarið sumarið 2004 og hefur baðgestum fjölgað verulega á síðustu árum. Árið 2017 komu rúmlega 218 þúsund baðgestir í jarðböðin.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að ákveðið hafi verið að hefja framkvæmdir við nýtt og stærra baðhús og baðlón á svæði félagsins þar sem núverandi aðstaða anni vart lengur þeim mikla fjölda gesta sem sækir jarðböðin, sérstaklega á háannatíma. Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir að ný aðstaða verði tilbúin á miðju ári 2021.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×