Erlent

Kim sækir Pútín heim

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Nordicphotos/AFP
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, mun ferðast til Rússlands og eiga þar fund með Vladímír Pútín, forseta Rússa. Frá þessu var greint í norðurkóreska ríkissjónvarpinu, KCNA, í gær. Óljóst er nákvæmlega hvenær fundurinn verður haldinn. Samkvæmt BBC er talið að leiðtogarnir hittist í Vladívostok á austurströnd Rússlands seint í þessum mánuði.

Hinn fyrirhugaði fundur Kim með Pútín er síður en svo óvæntur. Allt frá því Kim hóf að hitta erlenda leiðtoga, þá Donald Trump Bandaríkjaforseta, Xi Jinping Kínaforseta og Moon Jae-in Suður-Kóreuforseta, hefur verið rætt um mögulegan fund með Pútín.

Fundurinn með Pútín mun fylgja í kjölfar fundar með Trump sem álitinn var misheppnaður, enda náðu Kim og Trump ekki samkomulagi um framhaldið í kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans og undirrituðu enga sameiginlega yfirlýsingu.

Sovétríkin voru á árum áður ein helsta vinaþjóð Norður-Kóreu. Frá falli Sovétríkjanna hafa Rússar nokkuð fjarlægst einræðisríkið en Pútín, sem og Dmítríj Medvedev, fyrrverandi forseti, funduðu báðir með Kim Jong-il, einræðisherra og föður Kim Jong-un, á sínum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×