Innlent

Sá sem bar mislinga til Íslands finnur ekki til samviskubits enda taldi hann sig bólusettan

Birgir Olgeirsson skrifar
Eiríkur kom til Íslands með vél Icelandair 14. febrúar síðastliðinn.
Eiríkur kom til Íslands með vél Icelandair 14. febrúar síðastliðinn. Vísir/vilhelm
Maðurinn sem bar mislinga til Íslands segist ekki finna fyrir samviskubiti því hann taldi sig bólusettan. Rætt er við Eirík Brynjólfsson í Mannlífi en hann var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum.

Grunlaus flaug hann heim til Íslands með farþegaþotu Icelandair frá London til Keflavíkur 14. febrúar og til Egilsstaða daginn eftir með Air Iceland Connect þar sem nokkrir farþegar smituðust.

Eiríkur segist hafa fundið fyrir slappleika á leiðinni heim sem lýsti sér í frekar „meinleysislegum vindverkjum“ sem voru þó öllu meiri en hann á að venjast.

Daginn eftir að hann kom til Íslands var hann orðinn enn slappari en degi eftir að hann kom til Egilsstaða fór að bera á útbrotum.

„Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast,“ segir Eiríkur þegar hann lýsir veikindunum.

Hann bjóst við að vera bólusettur en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að svo var ekki. Hann segir föður sinn hafa stundað nám í Noregi þegar hann var barn og flakkað á milli Noregs og Íslands þar sem móðir hans var. Eitthvað virðist hafa misfarist á því flakki.

Eiríkur segir að bólusetningar virðast hafa verið lausar í reipunum á þessum tíma því sumir jafnaldrar hans voru bólusettir við tólf ára aldur en ekki allir. 

Sjö einstaklingar hafa smitast í heildina á Íslandi frá því Eiríkur kom til landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×