Fótbolti

VAR enginn dómari mættur í mynd­banda­dómara­her­bergið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Alcaraz og félagar í Real Valladolid skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik á móti Real Madrid en fengu bara eitt þeirra dæmt gilt.
Ruben Alcaraz og félagar í Real Valladolid skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik á móti Real Madrid en fengu bara eitt þeirra dæmt gilt. Getty/David S. Bustamant
Leikmenn Real Valladolid hafa eflaust ekki mikinn húmor fyrir VAR-sjánni eftir að hafa misst tvö mörk í tapleiknum á móti Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Í öðru VAR atvikinu gerðist þó eitt mjög skrýtið.

Spánverjar nota VAR-sjána í öllum sínum leikjum í spænsku úrvalsdeildinni og þar eru öll vafaatriði skoðuð af sérstökum myndbandadómurum.

Lið lenda því oft í því að fagna marki of snemma eins og var raunin í leik Real Valladolid og Real Madrid í gær.

VAR dómarar hafa líka verið mikið í umræðunni upp á síðkastið eftir að bæði Manchester United og Porto komust áfram í Meistaradeildinni í síðustu viku eftir að hafa fengið VAR-víti á lokamínútunum.

Sumir eru ekkert alltof hrifnir af þeim töfum sem skapast vegna VAR-sjáarinnar og vilja að vafaatriðin falli bara þar sem þau falla. Þannig hafi fótboltinn alltaf verið en því verður varla breytt til baka úr þessu.

Real Valladolid skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik á móti Real Madrid í gær sem voru dæmd af eftir innkomu myndbandadómara.

Í fyrra atvikinu gerðist það hins vegar að skipt var yfir í VAR-dómaraherbergið í sjónvarpsútsendingunni en þar var enginn og ljósið slökkt. Þetta var fyndið en um leið afar vandræðalegt.

Myndbandadómararnir tóku markið samt fyrir og dæmdu það réttilega af vegna rangstöðu. Einhvers staðar voru því menn staddir sem tóku þessa ákvörðun.

Blaðamaðurinn Sid Lowe, sem fjallar um spænska fótboltann, sagði seinna frá því að þetta hafi ekki verið rétta VAR-dómaraherbergið heldur það sem var notað í leik fyrr um daginn. Myndbandadómararnir voru því mættir í vinnuna þó að það hafi ekki litið út fyrir það.





Í seinni hálfleik kom aftur upp VAR-atvik og þá var skipt yfir í rétta VAR-herbergið.

Hér fyrir neðan má aftur á móti sjá þegar skipt var yfir í tóma VAR dómaraherbergið en undir má heyra lýsingu frá Ingvari Erni Ákasyni, sem fleiri þekkja undir nafninu Byssan.



Klippa: VAR enginn myndbandadómari mættur í vinnuna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×