Sport

Valgarð Íslandsmeistari í fjölþraut þriðja árið í röð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valgarð Reinhardsson og Agnes Suto-Tuuha eru Íslandsmeistarar í fjölþraut
Valgarð Reinhardsson og Agnes Suto-Tuuha eru Íslandsmeistarar í fjölþraut mynd/fimleikasamband íslands
Valgarð Reinhardsson varði Íslandsmeistaratitil sinn í fjölþraut á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í fimleikahúsi Ármanns í Laugardalnum.

Þetta var þriðji titill Valgarðs í röð og fjórði yfir allt. Hann vann titilinn nokkuð örugglega í ár.

Valgarð fékk 76.598 stig fyrir æfingar sínar en næsti maður var Martin Bjarni Guðmundsson með 74.432 stig. Martin varð Íslandsmeistari unglinga í fyrra en hann var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki.

Agnes Suto-Tuuha vann Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki. Þetta er í fyrsta skipti sem hún vinnur titilinn.

Keppni í kvennaflokki var æsispennandi og aðeins munaði 0.1 stigi á milli Agnesar og Thelmu Aðalsteinsdóttur fyrir síðasta áhaldið.

Agnes lauk leik með 47.750 stig og Thelma 47.450. Þriðja varð Emilía Björt Sigurjónsdóttir með 45.050 stig.

Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Irina Sazonova, gat ekki keppt í ár þar sem hún er nýbúin að eiga barn. Hún sat þess í stað í dómarastólnum í dag.

Á morgun fer fram keppni á einstökum áhöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×