Fótbolti

Mögnuð tölfræði um Messi, Real Madrid og mörk úr aukaspyrnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. AP//Miguel Morenatti
Lionel Messi skoraði eftirminnilega þrennu í gær þegar Barcelona vann 4-1 sigur á Real Betis í spænsku deildinni.

Barcelona fór langt með að tryggja sér meistaratitilinn með sigrinum enda er liðið nú komið með tíu stiga forystu á toppnum.

Umræðan eftir leikinn snerist hins vegar nær eingöngu um Lionel Messi og snilli hans í þessum leik. Það hafa nefnilega sjaldan sést jafnflott þrenna og sú sem Messi skoraði á heimavelli Real Betis í gær.

Fyrsta markið skoraði Messi beint úr aukaspyrnu, annað markið skoraði hann eftir laglegt þríhyrningaspil við Luis Suarez og það þriðja síðan með lygilegri vippu sem fékk meira að segja stuðningsmenn Real Betis til að klappa fyrir honum.

Það er einmitt þetta fyrsta mark hans beint úr aukaspyrnu sem kallaði á magnaða tölfræði.

Messi var þarna að skora sitt 25. mark beint úr aukaspyrnu frá og með 2011-12 tímabilinu. Aðeins eitt félag hefur skorað fleiri mörk samanlagt úr beinum aukaspyrnum á þessum tíma og það er Juventus.

Eins og spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo bendir á hér fyrir neðan þýðir þetta að Messi einn sé búinn að skora fleiri mörk úr aukaspyrnum á þessum átta tímabilum en allir leikmenn Real Madrid til samans.





Lyon, Roma, Paris Saint-Germain og Liverpool eru dæmi um lið sem eiga ekki möguleika í Lionel Messi einan þegar kemur að mörkum úr aukaspyrnum.

Messi fær vissulega að taka nær allar aukaspyrnur upp við vítateig mótherjanna en það er heldur ekki að ástæðulausu.

Messi er með 8,5 prósent nýtingu í aukaspyrnum í spænsku deildinni sem er hærra en þeir Ronaldinho (7,3 prósent), Cristiano Ronaldo (6,1 prósent) og Roberto Carlos (4,2 prósent).

Það er eitthvað sem segir okkur að aukaspyrnumörk Messi á þessu tímabili eigi eftir að vera fleiri. Barcelona er enn í baráttunni í bikarnum og Meistaradeildinni og því mikið af mikilvægum leikjum fram undan.





Lionel Messi hefur alls skorað 45 aukaspyrnumörk fyrir félagslið og landslið á ferlinum og skiptingu þeirra má sjá í Twitter-færslunni hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×