Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - KR 94-103 │Endurkomusigur hjá KR suður með sjó

Smári Jökull Jónsson í Grindavík skrifar
Úr fyrri leik liðanna í vetur
Úr fyrri leik liðanna í vetur Vísir/Bára
KR vann karaktersigur á Grindvíkingum í Mustad-höllinni í Dominos-deildinni í kvöld. Heimamenn leiddu nær allan tímann en gestirnir komu til baka í lokafjórðungnum og unnu 103-94 sigur.

Leikurinn var jafn til að byrja með en fljótlega fóru heimamenn að sigla fram úr. Lewis Clinch var í miklu stuði og heimamenn voru duglegir að setja niður þrista. Reyndar voru bæði lið dugleg að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna og voru með góða nýtingu.

Í öðrum og þriðja leikhluta héldu Grindvíkingar áfram að bæta við forystuna. Hún varð mest sextán stig og það leit ekkert út fyrir að KR-ingar væru að koma til baka.

En annað kom á daginn. KR-ingar náðu að loka í vörninni og Grindvíkingar fengu ekki lengur eins góð skot og þeir voru að fá og forskot þeirra minnkaði jafnt og þétt. Í fjórða leikhluta byrjuðu KR-ingar svo að gríðarlegum krafti, þeir tóku 11-2 áhlaup og komust yfir.

Grindvíkingar náðu að jafna í eitt skipti eftir þetta en síðan ekki söguna meir. Mike Di Nunno leiddi KR-inga áfram og með Julian Boyd öflugan sömuleiðis sigldu KR-ingar sigrinum í heimahöfn. Lokatölur 103-94 og sætur sigur KR staðreynd.

Af hverju vann KR?

Ingi Þór þjálfari KR-inga sagði að ein breyting í vörninni hefði gert gæfumuninn. Þeir færðu Kristófer Acox á Lewis Clinch og við það virkaði vörn gestanna mikið betur. Grindvíkingar skoruðu 54 stig í fyrri hálfleik en 40 stig í þeim seinni.

Grindvíkingar hittu mjög vel í fyrri hálfleik en þegar skotin hættu að detta niður fór forskotið jafnt og þétt að minnka. Þeir reyndu að fara inn í teiginn en það er ekki þeirra sterkasti leikur.

Þessir stóðu upp úr:

Mike Di Nunno átti sinn besta leik í KR-búningnum. Hann skoraði 32 stig, var með 9 stoðsendingar og 39 framlagsstig. Hann hitti úr sjö af tíu þriggja stiga skotum og var leikmaðurinn sem KR gat leitað til þegar á þurfti að halda.

Julian Boyd var sömuleiðis mjög öflugur og skilaði 30 stigum og tók 10 fráköst. Kristófer Acox tók 6 sóknarfráköst en þau skiluðu KR-ingum mikilvægum stigum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Hjá Grindavík var Clinch frábær, sérstaklega í fyrri hálfleiknum þar sem hann skoraði 19 stig. Ingvi var góður fyrir hlé líkt og Clinch en datt niður í seinni hálfleik. Sigtryggur Arnar skoraði 14 stig en var 1/10 í þristum og munaði um minna.

Hvað gekk illa?

KR-ingar voru linir í fyrri hálfleik og framan af þeim síðari. Þeir áttu í miklum vandræðum í vörninni og gerðu í raun öfugt við það sem Ingi Þór talaði um að gera fyrir leik sem var að loka á skotin þeirra fyrir utan.

Grindvíkingar eiga í erfiðleikum þegar þeir lenda í mótlæti. Þeir spiluðu lengst af vel í dag en um leið og fór að þyngjast róðurinn virtist sem þeir misstu trú á verkefninu.

Hvað gerist næst?

Grindavík á afar mikilvægan leik gegn Haukum á útivelli í næstu umferð. Liðin eru að berjast, ásamt ÍR-ingum, um síðustu tvö sætin inn í úrslitakeppnina og því sannarlega um fjögurra stiga leik að ræða.

KR tekur á móti Stjörnunni á heimavelli á föstudaginn. Stjarnan á leik á morgun gegn Njarðvík í algjörum toppslag en þeir unnu einmitt bikarmeistaratitilinn á dögunum. Það verður því um erfiðan leik að ræða fyrir KR-inga.

Jóhann Þór: Fín frammistaða lengst af
Jóhann Þór Ólafsson þjálfar Grindavíkvisir/bára
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var vitaskuld svekktur eftir tapið gegn KR á heimavelli í kvöld, í leik þar sem hann menn leiddu lengst af.

„Við vorum ekki nægilega beittir síðustu 15 mínúturnar. Við fyrsta mótlæti þá finnst mér við gefast upp, það kemur vonleysi og við missum trúna. Eina sem þeir breyta er að þeir fara að skipta sterkt á blokkeringum og við urðum hægir og ragir,“ sagði Jóhann Þór við Vísi eftir leik í kvöld.

„Við réðum illa við Ítalann þeirra (Mike Di Nunno) og hægt og bítandi fjaraði undan þessu. Við fengum tækifæri í restina, víti og sniskot. Fín frammistaða lengst og fullt af hlutum sem við getum byggt ofan á.“

Ingi Þór þjálfari KR talaði um breytingu í vörninni hjá sér, þar sem hann færði Kristófer Acox yfir á að dekka Lewis Clinch sem hafði verið frábær hjá Grindavík í fyrri hálfleik. Náðu Grindvíkinar aldrei að bregðast við því?

„Nei og jú. Hann skoraði 29 stig í heildina sem er mjög gott. Við misstum bara trúna þegar þeir fóru að hvæsa á okkur. Þeir hittu stórum skotum á meðan þeir voru að hitta, þetta er bara eins og það er.“

Grindvíkingar eru í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni og eiga einmitt leik á fimmtudag gegn Haukum sem eru í þessari baráttu með þeim.

„Við erum bara að fara í hörkuleik á fimmtudaginn og það er leikur sem við þurfum að vinna. Það er bara þetta gamla góða, einn leikur í einu og það er gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Jóhann Þór að lokum.

Ingi Þór: Seinni hálfleikur frábær
Ingi Þór var afar ánægður með sigurinn í kvöld.Vísir/Eyþór
„Við erum stoltir af sjálfum okkur hér í dag, þetta var geggjaður sigur. Við vorum rosalega mjúkir í einhverjar tuttugu mínútur í vörninni. Ein lauflétt breyting í hálfleik og það varð allt annar bragur á vörninni. Mikið hrós á liðið í heildinni,“ sagði kampakátur þjálfari KR, Ingi Þór Steinþórsson, eftir sigur á Grindavík í kvöld.

„Við settum Kristófer á Lewis (Clinch) og tókum hann af Óla, settum bakvörð í staðinn á hann. Það virkaði. Við vorum búnir að fá 18 stig stig á okkur frá Ingva og með þessu náðum við að stoppa það sem þeir voru búnir að gera. Þetta var eins og göngutúr fyrir þá í fyrri hálfleik.“

Grindvíkingar leiddu mest allan tímann og komust mest í sextán stiga forskot í þriðja leikhluta. KR fór þá að bíta frá sér, minnkuðu muninn jafnt og þétt og eftir 11-2 kafla í upphafi fjórða leikhluta náðu þeir forystu sem þeir létu aldrei af hendi eftir það.

„Það er eins og við höfum hörfað eftir þessar villur sem við fengum í byrjun. Við ætluðum að berjast og það var mikið dæmt í byrjun eins og oft er. Við bara bökkuðum og gáfum þeim það pláss sem þeir þurfa. Þeir eru gott skotlið og maður gefur góðu skotliði ekki pláss til að skjóta. Seinni hálfleikur var frábær hjá okkur.“

Mike Di Nunno var magnaður hjá KR í kvöld, skoraði 32 stig og áttu Grindvíkingar í stökustu vandræðum með að stöðva hann.

„Hann er búinn að vera heima hjá sér í myrkvuðu herbergi með skurð á höfði síðan í leiknum gegn Þór. Það er mjög jákvætt að fá þessa frammistöðu frá honum í dag. Við vissum að við þyrftum frammistöðu í dag frá öðrum, Jón og Pavel voru ekki með. Mér fannst frammistaðan, ekki bara hjá Mike, heldur öðrum alveg til fyrirmyndar,“ sagði Ingi Þór að lokum.

Di Nunno: Ég hef séð klikkaða hluti í þessari deild
Kristófer Acox, leikmaður KR, í leik gegn Njarðvík fyrr í vetur.vísir/bára
Mike Di Nunno átti frábæran leik fyrir KR gegn Grindavík í kvöld, þann besta síðan hann gekk til liðs við Vesturbæinga nú eftir áramótin. Hann skoraði 32 stig og skilaði 39 stig í sigrinum góða.

„Við eigum í vandræðum með byrjunina hjá okkur. En við náðum okkur á strik í fjórða leikhluta og náðum góðum hlutum í gang. Það eru nokkrir menn að spila hálf meiddir en við náðum sigrinum,“ sagði Di Nunno eftir sigurinn í kvöld.

Di Nunno hefur verið frá æfingum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Þór fyrir skömmu en sýndi heldur betur í kvöld hvað í hann er spunnið.

„Þetta er léttir. Ég er glaður með sigurinn en hvíldin gaf mér tíma til að ná mér af meiðslunum og laga smá hnjask hér og þar en ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn.“

KR-ingar sitja í 5.sæti deildarinnar en leikur þeirra hefur verið nokkuð sveiflukenndur í vetur, líkt og frammistaðan í kvöld.

„Tilfinningin hefur alltaf verið góð síðan ég kom. Það er erfitt þegar menn eru að meiðast en við þurfum að halda áfram og spila okkar leik. Ég hef séð klikkaða hluti í þessari deild á tveimur mánuðum, náum 20 stiga forskoti gegn Þór en töpum og lendum undir gegn Tindastóli en vinnum þar. Svo lendum við undir í kvöld en vinnum. Það gefst aldrei neinn upp og ég held að við séum með góðan hóp.“

KR hefur eins og flestir vita unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð en Di Nunno var ekki á því að það myndi hjálpa þeim mikið þegar í úrslitakeppnina væri komið.

„Ég held að það hjálpi ekki, þetta er nýr hópur, nýr þjálfari og nýir leikmenn í hinum liðunum. Maður þarf bara að verða betri með hverjum deginum sem líður, taka eitt skref í einu og eins og staðan er núna að ná heilsu,“ sagði Mike Di Nunno í viðtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira