Erlent

Næst­ráðandinn vann stór­sigur í Gdansk

Atli Ísleifsson skrifar
Aleksandra Dulkiewicz með dóttur sinni á kjörstað í gær.
Aleksandra Dulkiewicz með dóttur sinni á kjörstað í gær. AP/Wojciech Strozyk
Aleksandra Dulkiewicz, fyrrverandi aðstoðarborgarstjóri pólsku borgarinnar Gdansk, vann stórsigur í borgarstjórakosningum um helgina sem fram fóru tæpum tveimur mánuðum eftir morðið á borgarstjóranum Pawel Adamowicz.

Tilkynnt var um úrslit kosninganna í morgun og var þá ljóst að Dulkiewicz hafði fengið um 82 prósent atkvæða. Þátttaka í kosningunum mældist tæp 50 prósent.

27 ára karlmaður stakk Adamowicz á góðgerðarsamkonmu í miðborg Gdansk þann 14. janúar síðastliðinn, en borgarstjórinn lést af sárum sínum nokkrum klukkustundum síðar. Adamowicz var frjálslyndur í skoðunum og gagnrýndi reglulega stefnu Póllandsstjórnar í málefnum innflytjenda.

Dulkiewicz sagðist ánægð með kosningaþátttökuna í þessum „óvenjulegu og sérstöku kosningum sem enginn átti von á“. „Ég tel að á síðustu sjö vikum hafi íbúar Gdansk staðist prófið, ekki einungis sem manneskjur heldur einnig sem borgarar,“ segir Dulkiewicz.

Í frétt Reuters segir að stærstu flokkar Póllands hafi ekki boðið fram í kosningunum um helgina, og voru einu mótframbjóðendur Dulkiewicz því hægriöfgamennirnir Grzegorz Braun og Marek Skiba.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×