Íslenski boltinn

Jón Rúnar segir að það standi til að hann hætti sem formaður

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Aðalfundur knattspyrnudeildar FH er í kvöld og þá er fastlega búist við því að hinn litríki formaður knattspyrnudeildarinnar, Jón Rúnar Halldórsson, stigi frá borði.

Hjörvar Hafliðason knattspyrnuspekingur sagðist á Twitter hafa heimildir fyrir því að Jón Rúnar væri að hætta og sjálfur er formaðurinn þögull sem gröfin.

„Það er ekki hægt að hætta í FH,“ sagði Jón Rúnar léttur og kátur er Vísir sló á þráðinn til hans í morgun en stígur hann til hliðar í kvöld?

„Maður veit aldrei fyrr en eitthvað er orðið. Ég hef lært að það er ekkert fyrr en það er orðið. Það getur svo margt breyst.“

Eins og lesa má að ofan var formaðurinn ekki áfjáður í að tjá sig um fyrirætlanir sínar í kvöld en eftir að hafa gengið á hann í nokkurn tíma sagði hann þó þetta.

„Það stendur til en er ekkert fréttaefni fyrr en það er orðið. Ég hætti samt aldrei í FH. Ég kannski stíg frá en hætti ekkert í FH. Annars hef ég ekkert meira um málið að segja fyrr en að loknum fundi. Það er smá dulúð yfir þessu. Það er bara skemmtilegt.“

Það verður ekki auðvelt að feta í spor Jóns Rúnars, fari svo að hann hætti, enda er hann guðfaðir fótboltans í FH og maðurinn á bak við ótrúlega velgengni félagsins á öldinni.

Uppfært klukkan 11.04:

Viðar Halldórsson, formaður FH og bróðir Jóns Rúnars, staðfestir við fótbolta.net að það þurfi að bjóða sig fram þremur dögum fyrir aðalfund og það hafi Jón Rúnar ekki gert. Hann sé því að hætta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×