Körfubolti

Fyrsti bikarleikur Helenu í Höllinni í tólf ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir hampar bikarmeistaratitlinum eftir síðasta bikarleik sinn í Laugardalshöllinni. Með henni er Pálína Gunnlaugsdóttir.
Helena Sverrisdóttir hampar bikarmeistaratitlinum eftir síðasta bikarleik sinn í Laugardalshöllinni. Með henni er Pálína Gunnlaugsdóttir. Vísir/Vilhelm
Helena Sverrisdóttir verður með Valsliðinu í Laugardalshöllinni í kvöld en þar er meira en áratugur síðan hún var síðast í þessari stöðu.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Valskonur mæta Snæfelli í undanúrslitum Geysisbikars kvenna.

Þetta er líka langþráður leikur fyrir Helenu sem hefur ekki spilað bikarleik í Laugardalshöllinni síðan 17. febrúar árið 2007.

Helena hjálpaði þá Haukum að verða bikarmeistari eftir 78-77 sigur á Keflavík í úrslitaleik en hún var með 23 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar í úrslitaleiknum fyrir tólf árum.

Helena varð einnig bikarmeistari árið 2005 en hún var þá með 22 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst í 72-69 sigri Hauka á Grindavík í úrslitaleiknum.

Helena fór út í skóla í Bandaríkjunum eftir 2006-07 tímabilið og svo í atvinnumennsku í framhaldi af því.

Helena er nú á sínu fjórða tímabili eftir að hún kom aftur heim en nú fyrst tókst henni að komast í undanúrslit bikarsins. Hún missti af bikarnum eitt tímabilið þar sem hún var í barnsburðarleyfi en datt út með Haukum í átta liða úrslitum 2015-16 og svo út í sextán liða úrslitum með Haukum í fyrravetur.

Þegar Helena gengur út á fjalir Laugardalshallarinnar í kvöld þá verða liðnir 4106 dagar síðan hún spilaði síðasta bikarleik í húsinu.

Á þessum 4106 dögum hefur hún aftur á móti spilað átta landsleiki í Laugardalshöllinni og skorað í þeim 153 stig eða 19,1 stig að meðaltali í leik.

Leikur Vals og Snæfells hefst klukkan 20.15 en klukkan 17.30 spila Breiðablik og Stjarnan. Liðin sem vinna þessa leiki mætast svo í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×