Fótbolti

Eiginkonunni gengur ekkert að semja um nýjan samning og Icardi er kominn í verkfall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wanda Nara, eiginkona Mauro Icardi, hughreystir sinn mann á hliðarlínunni.
Wanda Nara, eiginkona Mauro Icardi, hughreystir sinn mann á hliðarlínunni. Getty/Robbie Jay Barratt
Mauro Icardi neitaði að ferðast með liðinu sínu í Evrópuleik eftir að fyrirliðabandið var tekið af honum.

Argentínumaðurinn Mauro Icardi er ekki lengur fyrirliði ítalska félagsins  Internazionale og hann fór heldur ekki með liðinu til Vínar þar sem liðið mætir Rapid Vín í Evrópudeildinni í kvöld.

Það gengur ekkert hjá Internazionale að ganga frá nýjum samningi við Mauro Icardi og félagið ákvað að taka af honum fyrirliðabandið.





Mauro Icardi var svo ósáttur með þá ákvörðun að hann neitaði að ferðast með liðinu til Austurríkis þar sem Internazionale mætir Rapid Vín í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Mauro Icardi er með samning til ársins 2021 en þessi 25 ára leikmaður ætlar sér greinilega að ná sér í góðan samning að þessu sinni.

Umboðsmaður hans er eiginkonan Wanda Nara og hún hefur því tvöfalda ástæðu að berjast fyrir risasamningi.

Markvörðurinn Samir Handanovic fékk fyrirliðabandið í stað Mauro Icardi.

Luciano Spalletti, þjálfari Internazionale, sagði að Icardi vildi ekki vera með liðinu. „Það var erfið og sársaukafull ákvörðun að taka fyrirliðabandið af Icardi en allir hjá félaginu voru sammála því og við vorum að hugsa um hag Internazionale,“ sagði Spalletti.

„Hann átti að fara til Vínar en vildi ekki vera hérna. Hlutir í kringum hann hafa truflað hann og liðið sem hann var fyrirliði hjá. Nú þurfum við hinir að ná fullri einbeitingu á leikinn við Rapid,“ sagði Spalletti.

Mauro Icardi hefur skorað 122 mörk í 208 leikjum með Internazionale en hann hefur aðeins leikið átta landsleiki fyrir Argentínu þar sem hann í raun verið settur út í kuldann vegna samskiptaerfiðleika við liðsfélaga sína.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×