Enski boltinn

James Bond bað um að hitta Klopp á Anfield

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Klopp þarf ekki að fela sig í jólasveinabúningum á æfingum.
Klopp þarf ekki að fela sig í jólasveinabúningum á æfingum. vísir/getty
James Bond bað um að hitta Jurgen Klopp sem þurfti að klæðast jólasveinabúningi í steggjun sinni svo hann þekktist ekki út á götu. Þetta kemur fram í skemmtilegu, öðruvísi viðtali við Klopp á Sky Sports.

Það er smá hlé á leikjadagskrá Liverpool þessa dagana, liðið spilaði síðast leik um síðustu helgi og á ekki leik fyrr en í miðri næstu viku.

Klopp nýtti fríið til þess að taka sína menn í æfingaferð til Spánar. Þar fá þeir smá tilbreytingu í æfingum sínum og Klopp fékk einnig tilbreytingu í spurningum frá blaðamönnum.

Blaðamaður Sky Sports ræddi við Klopp um lífið utan vallar.

„Margir frægir leikarar eru Liverpool aðdáendur. Daniel Craig, sem leikur James Bond, vildi hitta mig eftir leik í skóherberginu á Anfield,“ sagði Klopp.

„Frægt fólk er bara venjulegt fólk. Hann er góður náungi og það er skemmtilegt þegar James Bond vill hitta þig.“

Klopp er eitt af þekktari andlitum fótboltaheimsins, hann var kominn upp á stjörnuhimininn sem stjóri Borussia Dortmund en hefur flogið enn hærra sem stjóri Liverpool, sérstaklega þar sem hann hefur náð frábærum árangri með liðið.

„Ég fer ekkert í bæinn, bara til þess að mæta á leiki og á æfingar,“ sagði Klopp, en ítrekaði þó að þetta væri ekkert nýtt af nálinni.

„Þegar ég bjó í Mainz þá gat ég ekkert gert það sem ég vildi. Ég var steggjaður í jólasveinabúningi svo fólk þekkti mig ekki.“

„Þetta var líka erfitt í Dortmund og enn erfiðara í Liverpool. Það hjálpar til að ég er ekkert mikið fyrir að vera úti.“

Klopp fær sinn skammt af fersku lofti þegar hann stendur á hliðarlínunni í níutíu mínútur. Hann þarf að þola kalt vetrarloftið í Liverpoolborg á þriðjudagskvöld þegar Bayern München mætir í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×