Skoðun

Verkalýðsfélög eiga að hafa skoðun á samfélaginu!

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar
Ummæli Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sýnir þann mikla hroka sumra þingmanna sem við mætum í samfélaginu. Að segja að talsmenn félaga eða samtaka alls um 120.000 einstaklinga hafi ekkert með samfélagið að gera heldur eigi að takmarka sig við afmörkuð verkefni, gera kjarasamninga, en eigi samt að hlýða stjórnvöldum þegar þeir sinna því verkefni.

Verkalýðsfélög hafa það meginhlutverk að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna. Það er hins vegar hvergi þannig að kjarasamningar taki ekki mið af stöðu samfélaganna í heild sinni. Þá þarf ekki líta lengra en til hinna Norðurlandanna. Velferð í samfélögunum tengist alltaf inn í gerð kjarasamninga og byggir á samfélagslegum sáttmálum þessara landa.

Í hvert skipti sem komið er að því að semja um kaup og kjör þá stökkva stjórnmálamenn iðulega fram og kalla eftir hófsemi og það megi ekki semja á hvaða nótum sem er. Þegar komið er að samningaborðinu þá ber okkur að sjálfsögðu að finna leiðir til þess að hámarka gæðin sem samningarnir geta skilað okkar félagsmönnum. Það að auka kaupmátt launa er mikilvægt skref en að auka ráðstöfunartekjur (laun eftir skattgreiðslur) er enn mikilvægara.

Ef þingmenn ætla að vera svo forhertir í að lifa í sápukúlu og vilja ekki horfa á stóru myndina, stöðu almennings, þá ættu þeir að íhuga stöðu sína. Það verður alltaf okkar verkefni að horfa á hvernig við getum hámarkað gæði launafólks og þar geta stjórnvöld ekki verið stikkfrí!

Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands




Skoðun

Sjá meira


×