Innlent

Leysi­geisla beint að flug­vél sem var að lenda á Reykja­víkur­flug­velli

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Myndin er úr safni en tilkynnt var um geislann um níuleytið í gærkvöldi.
Myndin er úr safni en tilkynnt var um geislann um níuleytið í gærkvöldi. vísir/vilhelm
Lögreglu barst í gærkvöldi tilkynning þess efnis að einhver væri að beina grænum leysigeisla að flugvél sem var að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Lögregla mætti á svæðið en gerandinn fannst ekki þrátt fyrir leit.

Sterkir geislar af þessu tagi geta haft mjög truflandi áhrif á flugmenn, sér í lagi þar sem þeir eru að koma inn til lendingar og því hefði stórhætta geta skapast í þessu tilviki.

Að sögn lögreglu var nóttin fremur róleg, en þó voru sex vistaðir í fangageymslum. Um tíu í gærkvöldi voru tveir menn á þrítugsaldri handteknir í hverfi 104, grunaðir um að vera að selja fíkniefni og í nótt var síðan tilkynnt um umferðaróhapp í sama hverfi.

Þar hafði bíl verið ekið upp á umferðareyju og á skilti þannig að hann var nokkuð skemmdur. Tveir sáust á hlaupum frá flakinu og náði lögreglan í skottið á þeim skömmu síðar.

Báðir voru undir áhrifum fíkniefna og síðan kom í ljós að bílnum hafði verið stolið og að í honum fannst þýfi. Mennirnir gistu því fangageymslur í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×