Innlent

Millifærði fyrir mistök í banka

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Starfsmaður Landsbankans millifærði af innistæðulausu korti.
Starfsmaður Landsbankans millifærði af innistæðulausu korti. Vísir/Vilhelm
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært íslenskan karlmann á fimmtugsaldri og íslenska konu á fertugsaldri, bæði búsett í Svíþjóð, fyrir að kasta eign sinni á fjármuni sem millifærðir voru af starfsmanni Landsbankans fyrir mistök.

Ákærur á hendur fólkinu birtust í Lögbirtingablaðinu í gær þar sem skorað er á þau að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru og halda uppi vörnum í Héraðsdómi Reykjaness 8. mars næstkomandi.

Eru þau ákærð fyrir ólögmæta meðferð á fundnu fé með því að hafa í ágúst 2014 eignað sér ríflega 303.000 krónur. Konan virðist hafa beðið starfsmann Landsbankans um að millifæra upphæðina af Visa-greiðslukorti sínu inn á reikning mannsins, sem starfsmaðurinn hafi fyrir mistök gert. Visa-kort konunnar var hins vegar án innistæðu.

Fram kemur að þessi háttsemi varði við 246. gr. almennra hegn­ingar­laga. Er farið fram á að fólkið verði dæmt til refsingar og til að endurgreiða Landsbankanum 303.821 krónu auk vaxta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×