Enski boltinn

Eigendur Molde sögðu Solskjær að sleppa því að koma til baka

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Solskjær hefur blásið nýju lífi í lið United
Solskjær hefur blásið nýju lífi í lið United vísir/getty
Forráðamenn norska úrvalsdeildarfélagsins Molde sögðu Ole Gunnar Solskjær að hann ætti ekkert að snúa til baka til Noregs heldur njóta verunnar í Manchester og tryggja sér starfið hjá United til framtíðar.

Þetta hefur Sky Sports eftir Solskjær en hann hefur byrjað frábærlega sem bráðabirgðastjóri Manchester United.

Solskjær hefur unnið átta af níu leikjum sínum sem stjóri United og hefur enn ekki tapað leik. United sækir Leicester heim í dag.

„Þegar ég hringdi í eigandann og sagði honum frá því að United hafi hringt í mig þá sagði hann: „Farðu og njóttu þess, og endilega ekki koma til baka“,“ sagði Solskjær við Sky Sports.

„Báðir eigendurnir óskuðu mér alls hins besta því þeir vissu að þetta er eitthvað sem mig hafði dreymt um.“

Norðmaðurinn spilaði í ellefu ár með Manchester United við frábæran orðstír. Stjóratíð hans hjá félaginu byrjar með glæsibrag en hann er nú þegar búinn að bæta metið sem Sir Matt Busby átti yfir bestu byrjun sem knattspyrnustjóri félagsins.

„Ef ég fer aftur til Molde þá mun ég gera mitt besta fyrir félagið, en það fer allt eftir því hvenær ég fer til baka.“

„Þetta hefur verið frábært til þessa, en vonandi fæ ég að hitta fjölskylduna mína bráðlega, það er það eina neikvæða við þetta starf.“

Leikur Leicester og Manchester United hefst klukkan 14:05 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×