Enski boltinn

Guðmundur Helgi: Köstum þessu frá okkur í restina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guðmundur Helgi Pálsson
Guðmundur Helgi Pálsson vísir/bára
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var hundfúll í leikslok eftir að hafa séð sína menn liggja fyrir KA í mikilvægum leik í Olís-deild karla í kvöld.

„Það er rándýrt fyrir okkur að tapa þessum leik. Mér fannst við ekki hafa trú á verkefninu, það var fyrst og fremst það sem klikkaði. Við spiluðum ágætis vörn á köflum en svo vorum að gera aulamistök sem gáfu þeim færi á að skora beint í bakið á okkur. Við fáum fullt af dauðafærum sem við nýtum ekki og erum með allt of mikið af töpuðum boltum,“ segir Guðmundur Helgi.

Framarar áttu engin svör við framliggjandi vörn KA-manna. Voru Guðmundur og hans menn ekki búnir að undirbúa sig undir það að KA-menn myndu verjast þeim svo framarlega?

„Jú við vorum búnir að undirbúa það. Það er eitt að tala um hlutina og annað að gera þá. Menn verða að þora þegar komið er inn á völlinn. Við vorum staðir og vorum að hreyfa okkur of lítið en vorum samt alltaf inni í leiknum. Við köstum þessu frá okkur í restina,“ segir Guðmundur.

Framarar eru í fallsæti sem stendur en eru enn að horfa á að komast í úrslitakeppnina.

„Nú eru átta leikir eftir og það er úrslitaleikur í hvert skipti. Við verðum bara að fara að ná í stig. Við ætlum okkur að fara í 8-liða úrslit. Það er ekkert leyndarmál en þá þurfum við líka að taka fleiri stig og til þess þurfa fleiri menn að skila betri árangri heldur en í dag,“ segir Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×