Erlent

Norskur þing­maður hand­tekinn eftir „rúss­neska rúllettu“

Atli Ísleifsson skrifar
Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu árið 2013.
Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu árið 2013. Mynd/FRP
Lögregla í Noregi handtók um helgina þingmanninn Mazyar Keshvari vegna gruns um að hafa ógnað öðrum manni með skotvopni. Keshvari, sem er þingmaður Framfaraflokksins, neitar sök í málinu.

Talsmaður lögreglu staðfestir í samtali við VG að stjórnmálamaður hafi verið handtekinn vegna gruns um brot á hegningarlögum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

VG greinir frá því að Keshvari hafi framkvæmt einhverja tegund af „rússneskri rúllettu“ með skotvopni. Hafi hann verið ölvaður þegar atvikið átti sér stað.

Málið var tilkynnt til lögreglu af þeim Keshvari á að hafa hótað. Búið er að leggja hald á skotvopn í íbúð þingmannsins.

Kveðst saklaus

Lögmaður Keshvari hefur ekki tjáð sig um málið, nema það að skjólstæðingur sinn kveðst saklaus af öllum ásökunum. Hans Andreas Limi, þingflokksformaður Framfaraflokksins, hefur enn sem komið er ekki viljað tjá sig um málið.

Framfaraflokkurinn myndar stjórn í Noregi ásamt Hægriflokki Ernu Solberg forsætisráðherra, Venstre og Kristilega þjóðarflokksins. Formaður Framfaraflokksins er Siv Jensen fjármálaráðherra.

Hinn 37 ára Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×