Erlent

Kona handtekin vegna stórbrunans í París

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn stóðu í ströngu í París í nótt. Þeim tókst að bjarga fimmtíu manns af þaki hússins og út um glugga íbúða.
Slökkviliðsmenn stóðu í ströngu í París í nótt. Þeim tókst að bjarga fimmtíu manns af þaki hússins og út um glugga íbúða. Vísir/AP
Lögreglan í París er með konu í haldi vegna rannsóknar á upptökum eldsvoðans sem varð að minnsta kosti átta manns að bana í borginni í nótt. Saksóknari segir að grunur leiki á að eldurinn hafi kviknað af „glæpsamlegum“ orsökum.

Eldur kviknaði í átta hæða íbúðarhúsi við Erlanger-götu í 16. hverfi Parísar, einu efnaðasta og rólegasta hverfi borgarinnar. Fólkið sem lést er sagt hafa verið íbúar í húsinu. Auk þeirra eru fjörutíu slasaðir, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

AP-fréttastofan hefur eftir Remy Heitz, saksóknara, að konan sem var handtekin sé íbúi í húsinu. Hún hafi verið handtekin í nágrenni þess. Rannsóknin sé þó á frumstigum.

Upptök eldsins eru talin hafa verið á efri hæðum hússins og hann hafi síðan borist um bygginguna. Slökkviliðsmönnum tókst að ráða niðurlögum eldsins fyrir dögun. Þeir höfðu áður bjargað um fimmtíu manns af þaki hússins og út um glugga íbúða. Sex slökkviliðsmenn eru á meðal þeirra slösuðu, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×