Enski boltinn

Pellegrini: Klopp vanur að vinna leiki á rangstöðumörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Getty/MB Media
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri West Ham, skaut hressilega á kollega sinn í stjórastólnum hjá Liverpool eftir 1-1 jafntefli liðanna í London í gær.

Liverpool komst í 1-0 á rangstöðumarki en Michail Antonio jafnaði metin og kom í veg fyrir að Liverpool næði fimm stiga forystu á toppi deildarinnar.

James Milner var rangstæður áður en hann lagði upp markið fyrir Sadio Mane en aðstoðardómarinn missti af því. Það var hins vegar enginn vafi á því í endursýningunum.

Divock Origi fékk líka færi til að tryggja Liverpool sigurinn í lokin og það mark hefði staðið þrátt fyrir að Origi hafi verið rangstæður.

„Klopp er vanur því að vinna leiki á rangstöðumörkum. Hann vann mig þegar ég var hjá Malaga á marki þar sem maður var sjö metra inn fyrir. Hann getur því ekki kvartað yfir neinu,“ sagði Manuel Pellegrini.



Umræddur leikur var í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2013. Dortmund, lið Klopp, vann þá Malaga, lið Pellegrini, 3-2 eftir að hafa skorað tvö mörk í uppbótatíma. Fjórir leikmenn Dortmund voru rangstæðir í sigurmarkinu.

„Þeir skoruðu mark þar sem maður var metra fyrir innan og á síðustu mínútunni þá var Origi einum metra fyrir innan og fyrir framan aðstoðardómarinn,“ sagði Manuel Pellegrini sem talaði um það fyrir leikinn að ætla að hjálpa sínu gamla félagi Manchester City.



„Ég sagði í vikunni að við þyrftum að vinna þennan leik fyrir okkar stuðningsmenn og það væri ekki verra að hjálpa Manchester City líka, því það er mitt félag líka. Kannski var stjóri Liverpool þess vegna svona ósáttur,“ sagði Pellegrini.

Það eru ekki margir knattspyrnustjórar sem sækjast eftir leiðindum í samskiptum sínum við Jürgen Klopp enda oftast mjög vel liðinn en Manuel Pellegrini er greinilega einn af fáum.







Manuel Pellegrini og Jürgen Klopp í leiknum í gær.Getty/Catherine Ivill/



Fleiri fréttir

Sjá meira


×