Enski boltinn

Rooney: Pochettino rétti maðurinn ef Solskjær fær ekki starfið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney og Ole Gunnar Solskjær á æfingu fyrir mörgum árum síðan.
Wayne Rooney og Ole Gunnar Solskjær á æfingu fyrir mörgum árum síðan. vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, er rétti maðurinn til að taka við Manchester United að mati Wayne Rooney ef Ole Gunnar Solskjær fær ekki starfið til frambúðar.

Pochettino hefur verið sterklega orðaður við stjórastarfið hjá United undanfarnar vikur eftir brottrekstur José Mourinho en það mun reynast yfirmönnum United erfitt að senda Solskjær aftur til Noregs.

Norski stjórinn er búinn að vinna níu af tíu fyrstu leikjum sínum með United-liðið og ekki tapað einum. Hann er kominn áfram í bikarnum, búinn að koma liðinu í baráttu um Meistaradeildarsæti og gjörsamlega endurvekja leikmennina og stuðningsmennina.

„Það væri gaman að sjá Ole Gunnar fá tækifæri til að stýra félaginu áfram en ef ekki og ákveðið verður að velja einhvern annan tel ég Pochettino rétta manninn,“ segir Rooney í viðtali við CNN.

Undir stjórn Solskjær, sem spilaði 364 leiki fyrir United, er liðið búið að ná í 22 stig af 24 mögulegum í ensku úrvalsdeildinni eftir að safna aðeins 26 stigum í 17 leikjum undir stjórn Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×