Enski boltinn

Segir himinháa verðmiða í fótboltanum vera að eyðileggja janúargluggann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester United hefði reynt við Raphaël Varane fyrir eðlilegt verð að mati Neville.
Manchester United hefði reynt við Raphaël Varane fyrir eðlilegt verð að mati Neville. vísir/getty
Félagaskiptaglugginn sem opnast og lokast í janúar á hverju ári í fótboltanum er að verða að engu að mati Gary Neville, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, og félög eru frekar reiðubúin til að skipta um stjóra en að kaupa nýja leikmenn.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni eyddu aðeins 140 milljónum punda í janúar en á sama tíma í fyrra eyddu þau 465 milljónum í nýja leikmenn. Lið eins og Tottenham í bullandi toppbaráttu fékk ekki einn leikmann, annan janúarmánuðinn í röð, en það hefur aldrei áður gerst.

Aðeins sjö félög rifu upp veskið og keyptu nýja leikmenn en Neville segir óðaverðbólguna í fótboltanum sem leiðir til himinhárra verðmiða ástæðuna fyrir þessu. Liðin vilja styrkja sig en vilja ekki borga uppsett verð.

„Það kemur auðvitað á óvart að Arsenal keypti ekki varnarmann og að Tottenham fékk sér ekki varamann fyrir Harry Kane eða bara einhvern.  Vandamálið er að þau geta ekki fengið leikmennina sem þau vantar og í hreinskilni sagt er þetta vandamál,“ segir Neville í viðtali við Sky Sports.

„Félög eru ekki að selja leikmennina sína á eðlilegu verði þannig liðin sem eru á höttunum eftir leikmönnum þurfa að taka ákvörðun um hvort þau ætli að borga svona mikið í janúar.“

„Arsenal hefði klárlega styrkt sig ef það hefði fundið rétta manninn og það er alveg klárt að United hefði keypt til dæmis Raphaël Varane eða Harry Maguire fyrir rétt verð.“

„Ensku liðin bara geta ekki fengið þessa menn. ÞAu hafa spurt og reynt en það gengur ekkert. Þau eru bara föst. Þetta er alvöru vandamál því markaðurinn stendur í stað,“ segir Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×