Enski boltinn

Man. City getur unnið titil á sama degi og Liverpool mætir Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola hefur unnið þrjá titla á Englandi og getur bætt þeim fjórða við seinna í þessum mánuði. Hér er Pep Guardiola með Khaldoon Al Mubarak, stjórnarmanni Man City.
Pep Guardiola hefur unnið þrjá titla á Englandi og getur bætt þeim fjórða við seinna í þessum mánuði. Hér er Pep Guardiola með Khaldoon Al Mubarak, stjórnarmanni Man City. Getty/Matthew Ashton
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, spáir því að úrslitin í ensku úrvalsdeildinni ráðist ekki fyrr en í síðustu tveimur umferðum mótsins. City getur jafnað Liverpool að stigum vinni liðið Everton í kvöld.

Liverpool hefur gert jafntefli í tveimur síðustu leikjum sínum á móti Leicester og West Ham sem þýðir að stað þess að vera með sjö stiga forystu þá nær City toppsætinu á markatölu með sigri á Everton á Goodison Park.

Útsending Stöðvar 2 Sport Everton og Manchester City hefst klukkan 19:35 í kvöld.

Tottenham er heldur ekki út úr myndinni því liðið er bara fimm stigum á eftir toppliðunum og á eftir að mæta bæði Liverpool og Manchester City.





Leikur Everton og Manchester City átti að fara fram 23. febrúar en var fluttur fram vegna þess að þá helgi mætir City liði Chelsea í úrslitaleik enska deildarbikarsins.

Úrslitaleikur City og Chelsea fer fram á Wembley 24. febrúar og á sama degi fer fram risaleikur á Old Traford.

City getur því unnið titil þennan dag sem er líka mjög mikilvægur fyrir Liverpool sem heimsækir þá Manchester United á Old Trafford í gríðarlega veigamiklum leik fyrir Jürgen Klopp og lærisveina hans.

Í tilefni af orðum Pep Guardiola um að úrslitin ráðist í síðustu tveimur umferðunum er ekki úr vegi að skoða aðeins tvær síðustu umferðirnar og leiki toppliðanna í þeim.

Manchester City mætir þar Leicester á heimavelli og sækir síðan Brighton heim í lokaumferðinni.

Liverpool heimsækir Newcastle og tekur síðan á móti Wolves á Anfield í lokaumferðinni.

Tottenham er á útivelli á móti Bournemouth og í lokaumferðinni kemur svo Everton í heimsókn, vonandi á nýja Tottenham-leikvanginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×