Erlent

Lét lífið eftir að hafa hrasað í tröppu með barnakerru í fanginu

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað á 7th Avenue lestarstöðinni við 53. stræti á Manhattan.
Atvikið átti sér stað á 7th Avenue lestarstöðinni við 53. stræti á Manhattan. Getty
Ung móðir lét lífið eftir að hafa hrasað og dottið niður tröppu í neðanjarðarlestarkerfi New York borgar þar sem hún hélt á dóttur sinni í kerru.

BBC segir frá því að hin 22 ára Malaysia Goodson hafi fundist á lestarpalli á 7th Avenue lestarstöðinni við 53. stræti á Manhattan á mánudagskvöldið. Hún var úrskurðuð látin á Mt Sinai West sjúkrahúsinu.

Eins árs dóttir hennar, Rhylee, slasaðist ekki alvarlega og er nú í umsjá fjölskyldu. Goodson var fædd í New York en bjó í borginni Stamford í Connecticut.

Rætt um aðgengi

Atvikið hefur vakið upp gamla umræðu um aðgengi í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar.

Dieshe, bróðir Goodman, segir í samtali við Connecticut News 12 að systir sín hafi verið að versla og verið með fjölda innkaupapoka og barn sitt í kerru þar sem hún reyndi að komast niður tröppurnar.

Talsmaður samgönguyfirvalda í borginni segir málið hið sorglegasta og að þau geri sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að bæta aðgengi á lestarstöðvunum.

Einungis um 24 prósent af 472 neðanjarðarlestarstöðvum New York borgar eru taldar flokkast sem „aðgengilegar“. Hlutfallið er það lægsta í borgum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×