Innlent

Skipstjóri leiguskips Eimskips lést eftir að brot kom á skipið

Birgir Olgeirsson skrifar
Leiguskipið EF AVA.
Leiguskipið EF AVA. Marine Traffic/Marij
Skipstjóri leiguskips Eimskips lést þegar skipið fékk á sig brotsjó suður af Grænlandi aðfaranótt þriðjudags. Skipstjórinn var 55 ára gamall, fæddur 1964, og frá Póllandi en skipið heitir EF AVA og var á leið frá Nýfundnalandi til Íslands þegar þetta átti sér stað. Greint var fyrst frá málinu á vef mbl.is.

Elín Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Eimskip, segir í samtali við Vísi að skipstjórinn hafi verið við vinnu í brúnni þegar brot kom á skipið. Við það féll skipstjórinn og hlaut höfuðhögg sem leiddi til andláts.

Var skipið um 700 mílur frá Reykjavík þegar atvikið átti sér stað. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að haft var samband við gæsluna vegna atviksins en ákveðið var að kalla ekki áhöfn þyrlunnar út vegna málsins.

Elín segir skipið vera á leið til Reykjavíkur og er væntanlegt í höfn í kvöld.

Hún segir að skipið verði rannsakað af Rannsóknarnefnd samgönguslysa og væntanlega verði framkvæmd sjópróf.

Hún segir um sorglegan atburð að ræða og hugur allra starfsmanna Eimskips sé með fjölskyldu skipstjórans og skipverjum. „Við vottum þeim okkar dýpstu samúð.“

Elín segir útgerð skipsins hafa boðið áhöfninni áfallahjálp. Mun prestur vera til staðar fyrir áhöfnina sem er erlend utan eins Íslendings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×