Innlent

Tvær rútur og sjúkrabíll út af á Kjalarnesi

Birgir Olgeirsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Stearfsmenn Rauða kross Íslands huga að farþegum í Varmárskóla.
Stearfsmenn Rauða kross Íslands huga að farþegum í Varmárskóla. Vísir/Egill
Tvær rútur fóru út af veginum á Kjalarnesi á sjöunda tímanum í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru 27 manns í annarri rútunni en 11 manns í hinni. Var um að ræða ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Fólkið var flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Varmárskóla, utan fjögurra sem voru fluttir á slysadeild til skoðunar, en talið er að meiðsli þeirra séu minniháttar. Fólkið sem var flutt í Varmárskóla var síðar flutt til Reykjavíkur.

Vinnu viðbragðsaðila á vettvangi er lokið en aðstæður þar voru erfiðar enda slæmt veður, hálka og lítið skyggni. 

Farþegarnir voru fluttir í Varmárskóla, utan fjögurra sem voru fluttir á slysadeild til skoðunar.Vísir/Egill
Sjúkrabíll á vettvangi lenti utan vegar en mikil hálka og vonskuveður er á svæðinu. Engin slys urðu á fólki vegna þess. 

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar var meðalvindhraði á Kjalarnesi um 17 metrar á sekúndu rétt fyrir klukkan sjö í kvöld en öflugasta vindhviða náði 23 metrum á sekúndu. 

Vesturlandsvegur er lokaður á milli Mosfellsbæjar, við Þingvallaveg, og Hvalfjarðarganga og verður svo eitthvað áfram. 

Lögreglumenn í Varmárskóla, þangað sem farþegar voru fluttir.Vísir/Egill
Eftirfarandi tilkynning barst vegna málsins frá lögreglu um klukkan átta í kvöld:

Vinnu á vettvangi er lokið, en 27 voru í annarri rútunni og 11 í hinni. Þetta voru erlendir ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Fólkið var flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Varmárskóla, utan fjögurra sem voru fluttir á slysadeild til skoðunar, en talið er að meiðsli þeirra séu minni háttar. Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð vegna óhappsins.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 20:57




Fleiri fréttir

Sjá meira


×