Enski boltinn

Orðspor Mo Salah í hættu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fiskar hér víti á móti Brighton á dögunum.
Mohamed Salah fiskar hér víti á móti Brighton á dögunum. Getty/Andrew Powell
Mohamed Salah verið frábær á einu og hálfu tímabili sínu með Liverpool en ný þykir sumum knattspyrnuspekingum hann farinn að tefla á tæpasta vað með orðspor sitt.

Stuðningsmenn andstæðinga Liverpool hafa verið duglegir að benda á dýfingar hjá Egyptanum að undanförnu eftir að hann fiskaði vítaspyrnur á móti bæði Newcastle og Brighton en Mohamed Salah gerði sjálfum sér síðan engan greiða í leiknum á móti Crystal Palace um helgina.

Fyrrum dómarinn Keith Hackett skrifar pistil um helgina í enska boltanum í Telegraph og þar fer hann meðal annars yfir leikaraskap Mohamed Salah.





Það má deila um leikaraskap Mohamed Salah þegar hann fiskaði vítaspyrnurnar á móti bæði Newcastle og Brighton. Hann fór auðveldlega niður í bæði skiptin en í bæði skiptin var engu að síður brotið á honum.

Egyptinn getur aftur á móti ekki haldið neinu slíku fram í umdeildu atviki í leiknum á móti Crystal Palace því þar var um augljósan leikaraskap að ræða. Keith Hackett fer sérstaklega yfir það í pistli sínum.

Keith Hackett segir engan vafa á því að þarna hafi Mohamed Salah látið sig falla í teignum til að reyna að fiska víti. Jon Moss, dómari leiksins, lét ekki plata sig en klikkaði á því að gefa Salah gult spjald fyrir leikaraskap.

Hackett segir að dómararnir í ensku úrvalsdeildinni fari reglulega yfir myndbönd með leikaraskap í deildinni til þess að reyna að hjálpa sér í slíkum aðstæðum. Þessi gamalreyndi dómari telur að nú sé enginn vafi á því að leikaraskapur Mohamed Salah verði tekinn fyrir á slíkum fundum.

Að mati Keith Hackett er orðspor Mohamed Salah nú í hættu meðal dómaranna í deildinni sem og annarra.

Mohamed Salah þurfti reyndar enga vítaspyrnu til að skora mörkin sín á móti Crystal Palace þar sem Liverpool vann 4-3 endurkomusigur og hélt fjögurra stiga forskoti á Manchester City. Salah skoraði tvö mörk og er nú markahæsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu með sextán mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×