Enski boltinn

Hazard heldur áfram að gefa Real undir fótinn: „Af hverju ekki?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
"Ætti ég að koma mér burt frá Chelsea?“
"Ætti ég að koma mér burt frá Chelsea?“ vísir/getty
Eden Hazard, leikmaður Chelsea, hefur enn einu sinni talað vel um Real Madrid er hann var spurður út í möguleg félagsskipti til spænska risans.

Hazard hefur reglulega verið orðaður við brottför frá Englandi til Spánar og þá er Real Madrid reglulega í umræðunni.

„Af hverju ekki? Þú ert að spyrja spurningu en þú veist svarið svo ég þarf ekki að svara spurningunni,“ sagði Belginn ákveðinn er hann ræddi við tímaritið France Football.

„Ég hef unnið allt á Englandi, fyrir utan Samfélagsskjöldinn, en það þýðir ekki að ég sé að fara. Ég hef alltaf sagt það að ég vil prufa eitthvað annað en England en ég gæti einnig verið hér áfram.“

„Eftir heimsmeistaramótið í sumar vildi ég fara en á endanum ákvað ég að vera áfram hjá Chelsea og ég er að spila eitt besta tímabilið mitt á ferlinum.“

Hazard ólst upp við að horfa á Zinedine Zidane, fyrrum stjóra Real Madrid, og hefur hann oft tjáð sig um dálæti sitt á Zidane. Hann segir þó að hann muni ekki fylgja Zidane og sé ekki að bíða eftir því að sjá hvað hann geri næst.

„Ef hann fer til Manchester á morgun, sem dæmi, þá mun ég ekki fara þangað,“ sagði þessi magnaði knattspyrnumaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×