Fótbolti

Ronaldo mætti í svörtu og með sólgleraugu í réttarsalinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiana Ronaldo mætir í réttarsalinn í dag.
Cristiana Ronaldo mætir í réttarsalinn í dag. EPA/EFE/Javier Lizon
Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er nú staddur í Madrid þar sem hann kom fyrir dómara vegna ákæru á sig fyrir skattsvik þegar hann var leikmaður Real Madrid.

Ronaldo fékk að sjálfsögðu mikinn fjölmiðlasirkus í fangið þegar hann mætti í réttarsalinn en hann kom á staðinn klæddur svörtu frá toppi til táar, með svört sólgleraugu og með bros á vör. Kærastan Georgina Rodriguez var með honum.

Verði Cristiano Ronaldo fundinn sekur gæti hann þurft að greiða sekt upp á 18,8 milljónir evra eða um 2,6 milljarða íslenskra króna.





Dómarinn neitaði Cristiana Ronaldo um það bera vitni í gegnum sjónvarp í réttarsalnum eða fá að komast bakdyramegin inn í réttarsalinn til að forðast fjölmiðlafárið. Hann mætti því örlögum sínum með kærustunni.

Það er búist við því að hann játi sekt sína og sætti sig við fyrir fram ákveðna refsingu sem ætti að vera 23 mánaða skilorðsbundið fangelsi. BBC segir frá.

Á Spáni fara brotamenn vanalega ekki í fangelsi þegar þeir eru dæmdir í minna en tveggja ára fangelsi. Ekkert ofbeldi tengist brotum Ronaldo sem ætti því að sleppa við fangelsisvist.

Málið tengist sölu og samningum með ímyndarétt Cristiana Ronaldo en Portúgalinn er sakaður um að hafa ekki greitt neina skatta af þeim á árunum 2011 til 2014 þegar hann var leikmaður Real Madrid. Upphæðin var sögð vera í kringum 14,8 milljónir evra.

Lögfræðingar Cristiano Ronaldo halda því fram að um misskilning hafi verið að ræða og að hann hafi ekki markvisst eða meðvitað verið að svíkja undan skatti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×