Körfubolti

Þrettán ár í dag síðan að Kobe skoraði 81 stig á móti Raptors

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant árið 2006.
Kobe Bryant árið 2006. Vísir/Getty
22. janúar 2006 er minnisstæður dagur fyrir Kobe Bryant en fyrir þrettán árum þá varð hann aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem nær að skora 80 stig í einum og sama leiknum.

Kobe Bryant skoraði þá 81 stig í 122-104 sigri á Toronto Raptors. Hann bætti stigamet Lakers um heil tíu stig með þessari ótrúlegu frammistöðu sinni.

Lakers-liðið var mest átján stigum undir í þriðja leikhluta en vann sannfærandi sigur eftir að Kobe skoraði 55 stig í seinni hálfleiknum. Kobe skoraði 40 stigum meira en allir liðsfélagar hans til samans.



Aðeins einn maður hefur skorað meira í einum NBA-leik en Wilt Chamberlain tókst að skora 100 stig í einum leik árið 1962. Chamberlain skoraði þá 59 prósent stiga síns liðs í 169-147 sigri en Bryant var með 66 prósent stiga Lakers í umræddum leik.

Ferill Kobe Bryant fór aftur á fulla ferð með þessum leik og hann vann sér inn goðsagnarstatus með þessu 81 stigi. Hann varð stigahæsti leikmaður tímabilsins í fyrsta sinn seinna um vorið og í fjórða sæti í kosningunni á mikilvægasta leikmanninum.

Kobe var síðan kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar 2007-08 og vann síðan fjórða og fimmta meistaratitlana sína með Los Angeles Lakers 2009 og 2010.

Hér fyrir neðan má sjá ýmislegt um þessa sögulegu frammistöðu Kobe sem er orðin táningur frá og með deginum í dag.

















NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×