Viðskipti erlent

Mike Ashley vill kaupa plötuverslunarkeðjuna HMV

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Mike Ashley, eigandi íþróttavörukeðjunnar Sports Direct.
Mike Ashley, eigandi íþróttavörukeðjunnar Sports Direct. Nordicphotos/Getty
Breski kaupsýslumaðurinn Mike Ashley, eigandi Sports Direct, hefur gert tilboð í bresku hljómplötuverslunarkeðjuna HMV sem fór í gjaldþrot í síðasta mánuði. Þetta herma heimildir Financial Times.

Ashley, sem hefur látið til sín taka á breskum smásölumarkaði undanfarin misseri, er sagður hafa verið einn „nokkurra“ fjárfesta sem gerðu kauptilboð í HMV. Skiptastjóri á vegum KPMG tók við rekstri keðjunnar, sem rekur um 125 verslanir víða í Bretlandi, í kjölfar þess að hún var tekin til gjaldþrotaskipta í desember. Um tvö þúsund manns starfa hjá HMV.

Í frétt Financial Times er bent á að Ashley, sem á jafnframt knattspyrnufélagið Newcastle United, hafi á undanförnum sex mánuðum eignast keðjurnar House of Fraser og Evans Cycles í kjölfar þess að þær fóru í þrot. Jafnframt fer Sports Direct með hlut í tískukeðjunum French Connection og Debenhams.

Samkvæmt heimildum Sky News hefur Ashley átt í viðræðum við helstu viðskiptavini og birgja HMV á síðustu tveimur vikum og rætt þar áhuga sinn á því að eignast plötuverslunarkeðjuna. Ekki liggur fyrir hvort eignarhaldið á keðjunni, ef tilboð Ashleys verður samþykkt, verði í gegnum Sports Direct eða annað félag á hans vegum.

Keðjan hefur tvisvar sinnum verið tekin til gjaldþrotaskipta á undanförnum sex árum en rekstrarumhverfi hennar hefur versnað hratt á tímabilinu, sér í lagi eftir að streymisveitur hófu að selja aðgang að tónlist á netinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×