Innlent

Eyjamenn minntust Kolbeins Arons á fallegan hátt í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Halldór B. Halldórsson tók myndir af þessari fallegu athöfn í Vestmannaeyjum í kvöld.
Halldór B. Halldórsson tók myndir af þessari fallegu athöfn í Vestmannaeyjum í kvöld. Halldór B.
Handboltamannsins Kolbeins Arons Arnarsonar var minnst á fallegan hátt í Vestmannaeyjum í dag. Kolbeinn Aron var markmaður handboltaliðs ÍBV en leikmenn liðsins og vinir hans fóru upp í Heimaklett, hæsta fjall Vestmannaeyja, þar sem þeir röðuðu kertum um klettinn og skutu upp flugeldum til minningar um félaga sinn.

Í hlíðum Heimakletts má einnig sjá tölustafinn 1 sem var liðsnúmer Kolbeins.

Kolbeinn var aðeins 29 ára gamall þegar hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á aðfangadag jóla. Hann var einn af lykilmönnum í uppbyggingu og velgengni handboltans í Vestmannaeyjum undanfarin ár. 

Halldór B.
Eyjamaðurinn Halldór B. Halldórsson tók meðfylgjandi myndir af minningarathöfninni í Heimakletti í dag en hann segir mikla sorg í bænum vegna fráfalls Kolbeins sem hafi verið yndislegur maður og bæjarprýði. 

Halldór segir nokkra vaska einstaklinga hafa farið upp í Heimaklett síðdegis í dag en það tekur um klukkutíma að ganga þá leið sem þeir fóru til að raða kertunum sem munu væntanlega loga í alla nótt.

Halldór B.
Eftir að hafa æft og leikið með yngri flokkum ÍBV lék Kolbeinn Aron 17 ára gamall sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2006. Alls spilaði hann 279 leiki fyrir félagið, sem gerir hann að fjórða leikjahæsta leikmanni þess frá upphafi.

Kolbeinn Aron átti stóran þátt í því er liðið varð eftirminnilega Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2014 og bikarmeistari ári síðar.


Tengdar fréttir

Kolbeinn Aron er látinn

Kolbeinn Aron Arnarson markmaður ÍBV í handknattleik varð bráðkvaddur á heimili sínu í Vestmannaeyjum um jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×