Handbolti

Lærisveinar Arons náðu ekki að standa í Makedóníu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gamli refurinn Lazarov kann þetta enn
Gamli refurinn Lazarov kann þetta enn vísir/getty
Makedóníumenn unnu annan stórsigurinn í röð á HM í handbolta þegar þeir völtuðu yfir lærisveina Arons Kristjánssonar í Barein 28-23.

Makedónía byrjaði mótið á níu marka sigri gegn Degi Sigurðssyni og japanska landsliðinu. Þeir fylgdu því eftir með fimm marka sigri á Barein.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en svo sigu Makedóníumenn aðeins fram úr. Leikmenn Barein gáfust þó ekki upp og komu til baka og jöfnuðu 8-8 þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik.

Þá skoruðu Makedóníumenn hins vegar fjögur mörk í röð og fóru með 12-8 forskot í hálfleikinn.

Í seinni hálfleik náði Barein aldrei að koma með almennilegt áhlaup fyrr en alveg í blálokin þegar það var orðið of seint, sigur Makedóníu var í höfn.

Kiril Lazarov var valinn maður leiksins enda skoraði hann átta mörk fyrir Makedóníu. Bróðir hans Filip gerði fjögur líkt og Dejan Manaskov. Husain Alsayyad skoraði mest fyrir Barein, sex mörk.

Barein er því enn án stiga eftir fyrstu tvo leikina en Makedónía er með fullt hús og fjórtán mörk í plús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×