Innlent

Stormur og snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vetur konungur er ríkjandi í veðrinu þessa dagana.
Vetur konungur er ríkjandi í veðrinu þessa dagana. vísir/vilhelm
Það er útlit fyrir hvassa norðaustan átt á norðanverðu landinu í dag með snjókomu og gæti jafnvel orðið stormur á Vestfjörðum fram yfir hádegi að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að það verði svo mun hægari vindur og él sunnan lands en hiti verður í kringum frostmark.

 

„Í kvöld snýst í norðanátt og styrkur hennar jafnast yfir landið, víða verður strekkingur. Þá má búast við éljum á norðanverðu landinu, en það léttir til syðra. Það kólnar með norðanáttinni og í kvöld er útlit fyrir frost á bilinu 2 til 7 stig. Það dregur síðan úr vindi og éljum þegar líður á morgundaginn og herðir á frosti,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu:

Austan og norðaustan 13-23 m/s og snjókoma, hvassast á Vestfjörðum. Mun hægari vindur á sunnanverðu landinu og él. Hiti kringum frostmark. Norðan 10-15 í kvöld. Él norðanlands, en léttir til syðra. Frost 2 til 7 stig. Dregur úr vindi og éljum þegar líður á morgundaginn og herðir á frosti.

Á miðvikudag:

Norðan 5-10 m/s, en 10-15 austast á landinu. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 7 stig. Hæg breytileg átt um kvöldið og herðir á frosti.

Á fimmtudag:

Austan 5-10 m/s á sunnanverðu landinu, snjókoma með köflum og vægt frost, en slydda við ströndina og hiti um frostmark. Hægari vindur norðantil, stöku él og talsvert frost.

Á föstudag:

Austan og suðaustan 5-13. Rigning, slydda eða snjókoma um tíma sunnan- og vestanlands, hiti kringum frostmark. Hægari vindur norðaustantil, léttskýjað og frost 3 til 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×