Innlent

Funda í dag um öryggi á Hringbraut

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þessi mynd var tekin að morgni dags við gönguljósin á Hringbraut við Meistaravelli daginn eftir slysið. Ökumaður á jeppa brunar yfir á rauðu ljósi.
Þessi mynd var tekin að morgni dags við gönguljósin á Hringbraut við Meistaravelli daginn eftir slysið. Ökumaður á jeppa brunar yfir á rauðu ljósi. Vísir/Kolbeinn Tumi
Fulltrúar Íbúasamtaka Vesturbæjar, Vegagerðarinnar, lögreglunnar og Samgöngustofu mæta á samráðsfund sem Reykjavíkurborg hefur boðað til síðdegis í dag. Á dagskrá er umferð um Hringbraut í vesturbæ Reykjavíkur sem töluvert hefur verið rætt um eftir að ekið var á þrettán ára stúlku á leið til skóla að morgni dags í síðustu viku.

Fundurinn fer fram klukkan þrjú í húsakynnum borgarinnar við Borgartún og verða þrír fulltrúar frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar auk þess sem Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur situr fundinn. Fundurinn er ekki opinn almenningi en íbúar í vesturbænum hafa kallað eftir opnum íbúafundi um málið.

Vegagerðin er veghaldari Hringbrautar en álitaefni er meðal íbúa í vesturbænum og víðar hvernig sé best að auka öryggi við Hringbrautina. Í skýrslu starfshóps umhverfis- og skipulagssviðs frá 2017 um hraðaminnkandi aðgerðir á svæðinu var lagt til að lækka hraðamörk um 10 km/klst víða, þar með talið á Hringbraut, og auk þess fjölga svæðum með 30 km/klst hámarkshraða.

Sex þveranir eru á Hringbraut frá hringtorginu við Þjóðminjasafnið að JL-húsinu. Þrenn gatnamót og þrjú gangbrautarljós.

Eftir slysið í liðinni viku ákvað borgin að veita Vesturbæjarskóla fjármagn til að standa að gangbrautarvörslu við gönguljós á Hringbraut við Meistaravelli. Þá standa foreldrar vaktina á gatnamótum Hringbautar og Framnesvegar á morgnana og fylgja börnum yfir götuna.


Tengdar fréttir

Lögreglan leitar vitna að slysinu á Hringbraut

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir því að ná tali af þeim sem urðu vitni því þegar þrettán ára stúlka á leið í skólann varð fyrir bíl á miðvikudagsmorgun á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í Vesturbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×