Innlent

Ákærðar fyrir að ráðast á átta ára dreng á Akureyri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin er sögð hafa átt sér stað á skólalóð Síðuskóla á Akureyri.
Árásin er sögð hafa átt sér stað á skólalóð Síðuskóla á Akureyri. ja.is
Tvær konur á þrítugsaldri hafa verið ákærðar fyrir ólögmæta nauðung og barnarverndarbrot. Eru þær sagðar hafa ráðist á átta ára dreng á Akureyri, hreytt í hann fúkyrðum og neytt hann upp í bíl sinn. Konurnar lýstu yfir sakleysi sínu þegar málið var þingfest í dag.

Ríkisútvarpið vísar í ákæru héraðssaksóknara þar sem segir að konurnar hafi gert aðsúg að drengnum við Síðuskóla. Önnur kvennanna á að hafa öskrað á hann, rifið í handlegg hans og dregið inn í bifreiðina. Eiga þær að hafa neytt drenginn til að sitja þar á meðan þær óku honum heim til sín. Eru þær með þessar háttsemi sagðar hafa sýnt „drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi auk ógnandi og vanvirðandi framkomu,“ eins og segir í ákærunni.

Ekki er tekið fram hvort og þá hvernig konurnar tengjast drengnum. Sú eldri er ákærð fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarbrot en hin fyrir hlutdeild í brotunum. Á hún að hafa setið undir stýri, ekið drengnum heim og tekið þátt í brotunum. Móðir piltsins er sögð fara fram á eina og hálfa milljón króna í miskabætur ásamt vöxtum en málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrr í dag.

Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við fréttastofu að konurnar hafi lýst sig saklausa af ákærunni er málið var þingfest í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×